Hefur þú greinst með krabbamein? Hver er þín reynsla af greiningarferli, meðferð og endurhæfingu?
Krabbameinsfélag Íslands vinnur nú að undirbúningi rannsóknar meðal þeirra sem greinst hafa með krabbamein. Á heimasíðu félagsins er fólk hvatt til að takta þátt og hjálpa þar með til að benda á þá þætti sem helst þarfnast úrbóta í tengslum við greiningu krabbameins, meðferð og endurhæfingu.
Markmiðið er að finna þá þætti sem helst þarfnast úrbóta en félagið mun nýta niðurstöðurnar á ýmsa vegu til að vinna að úrbótum og stefnt er að því að rannsóknin verði fastur liður í starfsemi félagsins með það að markmiði að styrkja félagið í málsvarahlutverki sínu.
„Það skiptir okkur hjá Krabbameinsfélaginu miklu máli að vera í góðu sambandi við almenning og við hvetjum þá sem hafa reynslu og/eða skoðanir á því hvað megi betur fara til þess að senda okkur línu. Upplýsingar um það hvernig við getum þjónað þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum þeirra betur eru okkur afar mikilvægar bæði til að bæta okkar þjónustu og hvetja til úrbóta annars staðar. Enda er eitt af okkar hlutverkum einmitt að vinna að hagsmunamálum,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.