Heilsudagar í Húnabyggð komnir í gang
Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) er haldin víðsvegar um álfuna í september ár hvert. Í Húnabyggð er metnaðarfull dagskrá í gangi í tilefni átaksins sem Húnvetningar kjósa að kalla Heilsudaga í Húnabyggð og eru íbúar hvattir til að hreyfa sig, ganga eða hjóla í vinnu, fara í göngu- og hjólatúra en einnig að taka þátt í viðburðum sem boðið verður upp á.
Frítt verður í sund og opna tíma í sal Íþróttamiðstöðvarinnar og frítt verður á alla viðburði og fyrirlestra á dagskránni. Heilsudagarnir hófust í gær og standa til þriðjudagsins 30. september.
Dagskrá Íþróttavikunnar í Húnabyggð er kynnt daglega á Facebook-síðu Húnabyggðar og þar má einnig finna fullnaðardagskrá. Í dag verður fyrirlestur í matsal Húnaskóla kl. 17 þar sem Dr. Jakob Frímann Þorsteinsson, sem er íbúum á Norðurlandi vestra að góðu kunnur, mun fjalla um náttúruna og samfélagsmiðla og mun hann eflaust vanda sig. Í kynningu segir að í stuttu máli sé inntekið í fyrirlestrinum að færa rök fyrir því að við eigum að „drulla okkur út“ og njóta þess einfalda – og magnaða – sem náttúran hefur upp á að bjóða.
Í kvöld kl. 20 verður boðið upp á körfubolta fyrir 16 ára og eldri í íþróttahúsinu.
Í frétt í Húnahorninu segir: „Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir almenningi í Evrópu og er hún ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Sérstök áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og að hvetja Evrópubúa til að sameinast undir slagorðinu #BeActive til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Húnabyggð tekur að sjálfsögðu þátt með því að efna til heilsudaga.“
Fjölbreytta dagskrá Heilsudaga í Húnabyggð má sjá hér >