Heimahagarnir toga - Áskorandi Pála Rún Pálsdóttir

Sauðárkrókur er lítill og rólegur bær sem ég var svo heppin að fá að alast upp í. Ég er fædd og uppalin á Sauðárkróki en þegar ég var á átjánda ári pakkaði ég í tösku og flutti suður. Að flytja frá heimavelli voru mikil viðbrigði fyrir mig en aftur á móti þá hefur borgarlífið einhvern vegin alltaf átt vel við mig. Það  voru mikil forréttindi að fá að alast upp úti á landi og eyða barnæsku þar.

Núna, þegar ég er ný orðin móðir þá hugsa ég oft til þess hvort væri ekki málið að flytja aftur heim, jú ég vil auðvitað að barnið mitt fái að upplifa það sama og ég, þau forréttindi að fá að alast upp í náttúrunni. Ég hef komið mér vel fyrir ásamt manninum mínum í einu af úthverfum Reykjavíkur nánar tiltekið Úlfarsárdal. Úlfarsárdalur minnir mig oft á það að búa á Króknum, lítið og rólegt hverfi þar sem stutt er í náttúruna. En þrátt fyrir það finn ég hvað mest fyrir fjarlægðinni, fjarlægðinni frá fjölskyldunni nú þegar ég er að ala upp mitt fyrsta barn.

Ég hugsa til systra minna sem áttu sín börn fyrir norðan með foreldra mína í næsta húsi og gestir á hverjum degi sem kíktu við í eins og einn kaffibolla með litlum sem engum fyrirvara. Hér í höfuðborginni er annar bragur á heimsóknum, fólk hringir á undan sér og boðar komu sína í heimsókn með fyrirvara enda um meiri fjarlægðir að ræða þar sem það tekur lengri tíma að koma sér á milli staða.

En að öðru, í gegnum tíðina hefur sá orðrómur einkennt Reykjavík að það sé ekki spennandi að eignast börn í Reykjavík. Eins og kom fram hér að ofan þá eignaðist ég nýlega mitt fyrsta barn og fékk því að kynnast því sjálf hvernig það er að eiga  og ala upp barna í Reykjavík en uppeldi og fæðing eru tveir ólíkir þættir. Að eignast barn er dásamleg upplifun í alla staði, ég var einstaklega heppin og átti dásamlega fæðingu þar sem ég var komin á fæðingardeildina skömmu eftir að ég yfirgaf heimili mitt. Þegar ég hugsa til baka þá hefur það tekið mig um tíu mínútur að komast á fæðingardeildina.

Eftir þessa upplifun mína af fæðingu í Reykjavík get ég ekki annað en hugsað heim á Krók til þeirra kvenna sem ekki hafa þann möguleika að koma sér hratt og örugglega á næsta fæðingarstað. Sú tilhugsun að  sitja í bíl með hríðar og þurfa að ferðast yfir Öxnadalsheiði í misjöfnu veðri þegar þú ert komin af stað í fæðingu er langt frá því að vera óskastaða, en þetta er sú heilbrigðisþjónusta sem við búum við í dag. Þótt margt sé betra við að búa úti á landi þá er ég ákaflega fegin því að hafa ekki þurft að ferðast alla þessa vegalengd með hríðar og koma mér svo aftur heim með nýfætt barn að vetrarlagi þegar allra veðra er von. Ég dáist að þeim konum sem þurfa að leggja slíkt á sig, þær eiga hrós skilið.

Í frítíma okkar reynum við fjölskyldan að vera dugleg að njóta þeirrar fegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Heimahagarnir toga engu að síður alltaf í mann og nýt ég hverrar stundar vel sem ég get varið með fjölskyldunni í Skagafirði.
Ég skora á Ragnhildi Sigrúnu Björnsdóttur sem næsta pistlahöfund.

Áður birst í 12. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir