Heimir frestar suðurför
Karlakórinn Heimir hefur ákveðið að fresta fyrirhugaðri suðurferð, en næstkomandi föstudag ætluðu þeir að syngja í Langholtskirkju í Reykjavík og í Vestmannaeyjum á laugardaginn. Aðspurður segir Atli Gunnar Arnórsson formaður kórsins að þeir séu þó aldeilis óbugaðir og stefni suður við fyrsta hentugleika, þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa.
Hann segist vongóður um að af ferðinni geti orðið í sumar eða haust, nákvæmar tímasetningar verði að bíða betri tíma. „Við höfum fundið fyrir því undanfarna daga að fólk veigrar sér við að fara á tónleika, sem er mjög skiljanlegt og það er búið að vara stóra hópa í þjóðfélaginu við því að fara á samkomur. Við teljum því ekki forsvaranlegt að standa fyrir tónleikum við þessar aðstæður. Fólk sýnir þessu skilning, og við mætum tvíefldir til leiks þegar aðstæður leyfa,“ segir Atli, og hvetur þá sem áhuga hafa á kórnum að fylgjast með Facebook síðu kórsins, þar birtist reglulega fréttir af starfi kórsins.
Hér fyrir neðan má heyra kveðju kórsins til Sunnlendinga sem finna má á síðu kórsins.
Kveðja til sunnlendinga.Posted by Karlakórinn Heimir on Mánudagur, 9. mars 2020