Helga Rós með hlutverk í Don Carlo eftir Verdi
Á komandi haustmisseri verður ráðist í metnaðarfullt verkefni hjá Íslensku óperunni. Um er að ræða sviðssetningu á Don Carlo eftir Verdi. og er Helga Rós Indriðadóttir söngkona í Skagafirði mun fara með hlutverk Elísabetar drottningar í uppfærslunni.
Don Carlo hefur aldrei verið sviðssett á Íslandi áður og munu eingöngu íslenskir söngvarar taka þátt í uppfærslunni. Með eitt af aðalhlutverkunum fer Kristinn Sigmundsson en hann hefur ekki tekið þátt í uppfærslum íslensku óperunnar sl. 12 ár. Helga Rós snýr sömuleiðis aftur eftir langt hlé.
Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir sýningunni og hefur hún Pál Ragnarsson ljósahönnuð og og Þórunni Sigríði Þorgrímsdóttur búninga- og leikmyndahönnuð sér til fulltingis. Guðmundur Óli Gunnarsson verður hljómsveitarstjóri.
Flutt verður fjögurra þátta útgáfan af þessu mikla verki Verdi og verður hún sungin á ítölsku með íslenskum skjátexta. Frumsýning verður í Eldborg í Hörpu 18. október og eru þrjár aðrar sýningar ráðgerðar í október og nóvember. Miðasala hefst á mánudag, 18. ágúst.