Helgi Freyr fylgir ekki stelpunum upp í Subway deildina

Helgi Freyr. MYND FACEBOOKSÍÐA KÖRFU.TINDASTÓLS
Helgi Freyr. MYND FACEBOOKSÍÐA KÖRFU.TINDASTÓLS

Á Facebooksíðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir að Helgi Freyr Margeirsson, þjálfari meistaraflokks kvenna hefur látið af störfum og mun því ekki fylgja stelpunum upp í Subway deildina á næstu leiktíð. Það er ákvörðun stjórnar að þjálfun liðs í Subway deildinni verður ekki sinnt með annari vinnu, svo vel megi vera.

Helgi Freyr tók við meistaraflokki kvenna síðastliðið sumar og stýrði þeim á nýliðnu tímabili. Helgi Freyr setti saman spennandi lið með heimastúlkum og náði í unga og efnilega íslenska leikmenn sem fluttust á Sauðárkrók, ásamt því var hann með góða erlenda leikmenn. Þetta var blanda sem virkaði svo sannarlega hjá honum. Liðið lenti í fjórða sæti í 1. deild og vann sér inn þátttöku í umspilssæti í Subway deildinni. Liðið byrjaði á að vinna Snæfell 3 - 1 en tapaði svo fyrir Aþenu 3 - 1 og komst því ekki upp í Subway deildina. Það var ekki fyrr en lið Fjölnis dró sig úr keppni í Subway deildinni sem Tindstól var boðið að taka sæti Fjölnis sem Tindastóll þáði.

Jafnframt kemur fram að það verði mikill missir af Helga Frey. Hann er ekki einungis með mikla þekkingu og margra áratuga reynslu af körfubolta heldur er hann einnig mikill liðsmaður og nær vel til iðkenda sinna. Helgi Freyr er með stórt og mikið Tindastóls hjarta og hefur alltaf brunnið fyrir félagið sitt.
Vonandi snýr Helgi Freyr fljótt aftur í þjálfarastólinn hvort sem það verður hjá meistaraflokkum félagsins eða yngri flokkum. Öflugt félag þarf á öflugu fólki að halda.
Körfuknattleiksdeild Tindastóls þakkar að lokum Helga Frey fyrir samstarfið og allt það sem hann hefur gert fyrir Tindastól.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir