Hitaveita lögð um sveitir Húnaþing vestra

Áformað er að tengja 35 íbúðar- og atvinnuhús í sveitum Húnaþings vestra við hitaveitu á þessu ári og er áætlaður kostnaður Hitaveitu Húnaþings vestra 240-250 milljónir króna. Áætlað er að halda áfram næstu tvö árin og ráðgert er að leggja ljósleiðara og jafnvel raflögn með hitaveiturörunum. Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur kynnt íbúum Miðfjarðar og Hrútafjarðar áform um heitaveituvæðinguna. Morgunblaðið greinir frá þessu í blaðinu í gær.

Í fyrsta áfanga yrði lögn um Miðfjörð og byggðina norðan Reykja í Hrútafirði. Ráðgjafi um framkvæmdina er Bragi Þór Haraldsson frá Stoð ehf. á Sauðárkróki en mikil reynsla sögð er komin af slíkum veitum í Skagafirði.

Lögn um Miðfjörð mun koma frá borholum ofan Laugarbakka, vatnshiti er þar nær 90 stig. Áformuð lagning er inn Austursíðu, allt að Barkarstöðum, og með þremur tengingum til bæja vestan Miðfjarðarár. Lögn að Staðarbakka og þaðan á hálsabæina, Skarfshól og Búrfell. Önnur lögn að Brekkulæk og þaðan í Huppahlíð. Þriðja lögnin er að Laxahvammi, veiðihúsi Miðfjarðarár. Alls eru þetta 30,7 km lagnir.

Jafnhliða vatnslögninni er ráðgert að leggja ljósleiðara, sem myndi bæta netsamband bæjanna afar mikið. Einnig er unnið að því að semja við Landsnet og Rarik til að leggja jarðstreng með lögninni, en um sveitina liggur einfasa loftlína, sem er komin til ára sinna. Alls eru um 20 íbúðar- og atvinnuhús á þessari leið.

Frá Reykjum í Hrútafirði mun koma lögn til norðurs, allt að Bessastöðum á Heggstaðanesi og upp á Miðfjarðarháls, að Tjarnarkoti, Sveðjustöðum og Brúarholti. Lengd lagnar er um 18 km en alls eru um 15 íbúðarhús á þessari leið. Áætlaður verktími er frá maí til október á þessu ári.

Sparnaður um 250 - 280 þúsund krónur á ári

Í Morgunblaðinu segir ennfremur að áætlaður kostnaður við tengingu íbúðarhúsa sé 2,2 til 2,5 milljónir króna og hafi þá húsráðendur nokkuð frjálsar hendur um nýtingu vatnsins, lagnir í útihús, heita potta, gróðurhús o.þ.h. Sumir húseigendur þurfi að auki að leggja í verulegan kostnað, þar sem hús þeirra séu nú kynnt með rafmagns-þilofnum.

Talið sé að í meðalhúsi geti kostað um eina til eina og hálfa milljón að skipta yfir í vatnshitakerfi. Í þeim tilfellum þurfi trúlega að láta teikna upp nýtt lagnakerfi. Útreikningar bendi til þess að húseigendur spari sér um 250 - 280 þúsund króna á ári með breytingu úr rafveitu í hitaveitu.

Leitað verður til húseigenda á þessum veitusvæðum, hvort hús þeirra verði tengd, svo og leyfi fyrir að leggja lögnina um lönd þeirra. Sveitarstjórn hyggst halda átakinu áfram á næstu árum, með lögn í Víðidal og norðurhluta Miðfjarðarsveitar að vestan. Innri hluti Hrútafjarðar mun bíða um sinn, þar sem bora þarf eftir auknu vatni við Reykjatanga.

Fleiri fréttir