Hitaveitulögnin yfir Héraðsvötnin komin í lag
Viðgerð er lokið á annarri hitaveitulögninni yfir Héraðsvötnin í Skagafirði sem fór í sundur í upphafi mánaðar. Náttúruöflin geta oft verið erfið viðureignar og fengu starfsmenn Skagafjrðaveitna að finna fyrir því.
Fengnar voru tvær beltagröfur til að grafa niður að leiðslunni sem liggur undir Héraðsvötnin neðan Varmahlíðar og er hún önnur þeirra sem sér Blöndhlíðingum fyrir heitu vatni. Þegar komið var niður að leiðslunni kom í ljós að múffa hafði sprungið á samskeytum og telur Gunnar Björn Rögnvaldsson verkstjóri Skagafjarðaveitna hugsanlegt að það hafi gerst þegar lögnin var plægð niður á sínum tíma.
Viðgerð gekk vel fyrir sig en starfsmenn SKV voru í kapphlaupi við vöxtinn í vötnunum því yfirborð fljótsins hafði hækkað um ca. 0,6 metra meðan á framkvæmdinni stóð. Skömmu síðar var gryfjan komin á kaf.
Myndir tók Gunnar B. Rögnvaldsson.