Hjartaaðgerð Jökuls Mána gekk vel
Hinn ungi Skagfirðingur, Jökull Máni Nökkvason, fór í hjartaaðgerðina sína á Barn- och Ungdomssjukhuset í Lundi í Svíþjóð í fyrradag, 4. október. Að sögn Önnu Baldvinu Vagnsdóttur, móður Jökuls Mána, tókst aðgerðin vel, en hefur það eftir skurðlækninum að hjartað hefði verið mjög þreytt og hefði verið það eina sem kom honum á „óvart“. Öllum götum á milli hjartahólfa var lokað og hans eigin lokur notaðar til þess að búa til nýjar, og minnka lekann. Á Facebookfærslu Önnu Baldvinu segir að það sé aðeins leki á milli hólfa ennþá en læknarnir séu mjög bjartsýnir á það að hann sé ekki mikill og komi ekki til með að hrjá hann.
„Aðgerðin tók lengri tíma en áætlað var vegna þess að hjartað var orðið svo þreytt og þar af leiðandi eftir aðgerðina var erfiðara heldur en vanalegt er að koma því aftur af stað og einnig þess vegna var skurðinum ekki lokað fyrr en í morgun til þess að vera alveg viss um það að allt væri í góðu! En hann er ennþá í öndunarvél og verður það að öllum líkindum eitthvað fram á morgundaginn og jafnvel einn dag í viðbót en það kemur allt í ljós, en annars er allt jákvætt og gott að frétta af okkur hér í Svíþjóð og erum við öll farin að anda mun léttar! Loksins er allt farið að ganga í réttu áttina og erum við svo glöð og stolt af litla gullmolanum okkar,“ segir Anna Baldvina á FB.
Þegar Feykir hafði samband við Önnu Baldvinu í morgun sagðist hún hafa gleymt að setja það á Facebook að Jökull Máni var nánast strax farinn að fá mjólk eftir aðgerð og þá í gegnum sondu og gengur það mjög vel. Einnig vildi hún koma kæru þakklæti til allra fyrir þann stuðning sem fjölskyldan hefur fengið og allar fallegu kveðjurnar.
Tengd frétt: Söfnun til styrktar Jökli Mána