Hlutfall erlendra ríkisborgara lægst á Norðurlandi vestra

Mynd:www.skra.is
Mynd:www.skra.is

Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman fjölda erlendra ríkisborgara sem eru búsettir hér á landi eftir sveitarfélögum. Tölurnar miðast við 1. desember 2018. Í frétt á vef Þjóðskrár kemur fram að hlutfall erlendra ríkisborgara er talsvert misjafnt milli sveitarfélaga eða frá rúmum 40% niður í engan skráðan. 

Sé horft á landið í heild má sjá að í Mýrdalshreppi er hæst hlutfall erlendra ríkisborgara en þar eru alls 40% skráðra íbúa með erlent ríkisfang eða 280 íbúar  af 687. Lægst er hlutfallið í Árneshreppi þar sem enginn íbúi með skráða búsetu í hreppnum er með erlent ríkisfang. Næst á eftir kemur Skagabyggð með 1,1% en þar er aðeins einn íbúi með erlent ríkisfang. 

Ef litið er til landshluta þá er hæsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang á Suðurnesjum, 22,3%. Næst kemur Vesturland með 15,5%. Á Norðurlandi vestra er hlutfallið lægst eða 6,8%. 

Flestir erlendir ríkisborgarar eru frá Póllandi eða 19.269 og 4.093 einstaklingar eru með litháískt ríkisfang miðað við tölur þjóðskrár frá 1. janúar sl.

Í sveitarfélögum á Norðurlandi vestra býr hæst hlutfall erlendra ríkisborgara í Blönduósbæ,  103 einstaklingar eða 11% en næsthæst er hlutfallið í Akrahreppi þar sem hlutfallið er 9,5% eða 19 íbúar. Eins og áður segir er Sakgabyggð með lægsta hlutfallið, 1,1% eða einn einstakling.

Alls bjó 491 erlendur ríkisborgari á Norðurlandi vestra þann 1. desember sl.

Hér má sjá töflu yfir fjölda íbúa og hlutfall erlendra ríkisborgara eftir sveitarfélögum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir