Hóladeild Skógræktarfélags Skagfirðinga

Frá undirritun stofnunnar Hóladeildar.

Þann 8. október var stofnuð deild innan Skógræktarfélags Skagfirðingar sem ber heitið Hóladeild Skógræktarfélags Skagfirðinga.Hugmyndin að stofnun Hóladeildar kom upp síðastliðið sumar og fljótlega kom stjórn Skógræktarfélags Skagfirðinga saman á Hólum, þar sem skógurinn var m.a. skoðaður.

 

Stjórnin ræddi hugmyndina að stofnun deildarinnar og var mjög jákvæð fyrir henni. Undirbúningsnefnd að stofnun Hóladeildar kom saman á haustdögum og lauk störfum nefndarinnar með stofnfundi Hóladeildar þann 8. október s.l.  Í Stjórn Hóladeildar Skógræktarfélags Skagfirðinga voru kjörin Laufey Haraldsdóttir, Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir og Þórður Ingi Bjarnason . Varamenn í stjórn voru kjörin Hjalti Þórðarson  og Sólrún Harðardóttir.
Sameiginlegt markmið allra er að efla Hólaskóg og gera hann aðgengilegan almenningi. Með stofnun Hóladeildar Skógræktarfélags Skagfirðinga er lagður grunnur að góðu samstarfi Skógræktarfélagsins og Hólaskóla til framtíðar.
Á fundinum skrifuðu Ragnheiður Guðmundsdóttir formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga, Skúli Skúlason rektor Hólaskóla og Laufey Haraldsdóttir nýkjörinn formaður Hóladeildar undir yfirlýsingu um rekstur og viðhald Hólaskógar. Þar kemur m.a. fram að markmið hlutaðeigandi aðila er að gæta hagsmuna skógarins og stuðla að því að gera skóginn að útivistarsvæði fyrir alla Skagfirðinga og gesti þeirra. Einnig að skógurinn geti nýst í kennslu í skólum í Skagafirði, á öllum skólastigum.
Hóladeild Skógræktarfélags Skagfirðinga mun sjá um framkvæmdir er lúta að umhirðu Hólaskógar og opnun hans fyrir almenningi  Hóladeild starfar sjálfstætt að ofangreindum markmiðum, en í samráði við Skógræktarfélag Skagfirðinga og Hólaskóla. Framkvæmdir í skóginum verða fjármagnaðar með styrkjum og allar hugsanlegar tekjur af skóginum, t.d. vegna jólatrjásölu, verða nýttar í þágu skógarins.

Fleiri fréttir