Hólaskóli tekur þátt í alþjóðlegri ráðstefnu

Háskólinn á Hólum tók þátt í alþjóðlegri ráðsstefnu um þjálfunarlífeðlisfræði hesta (ICEEP=International Conference on Equine Exercise Physiology), í Chester á Englandi dagana 16. – 20. júní sl. Á ráðstefnunni er fjallað hverju sinni um allt það nýjasta á sviði þjálfunarlífeðlisfræðirannsókna á hestum á heimsvísu.

Samkvæmt vef Háskólans á Hólum komu vísindamenn víðsvegar að úr heiminum, s.s. frá Evrópu, Asíu, Norður- og Suður-Ameríku og Ástralíu til að taka þátt. Fyrsta slíka ráðstefnan var haldin í Oxford á Englandi 1982 og hefur verið haldin á fjögurra ári fresti síðan víða um heiminn.

Guðrún Stefánsdóttir doktorsnemi í þjálfunarlífeðlisfræði hesta og kennari við Hólaskóla, fór á ráðstefnuna. Hún var með stutta kynningu á rannsóknaniðurstöðum á líkamlegu álagi á íslenska hesta á kynbótasýningum.

Anna Jansson, prófessor við hestafræðideild Hólaskóla og við sænska landbúnaðarháskólann, kynnti niðurstöður rannsókna frá sænska landbúnaðarháskólanum þar sem búið er að sýna fram á að hægt er að fóðra Standardbred brokkara eingöngu á hágæðaheyi, auk vítamína og steinefna, og ná árangri á keppnisbrautinni (sjá nánar www.slu.se/athletic-horses).

„Erlendis eru keppnishestar í veðhlaupum, til dæmis Thoroughbred og Standardbred hestar, oftast fóðraðir á miklu magni af kjarnfóðri sem getur haft margvísleg óæskileg hliðaráhrif á heilsu þeirra, t.d. aukið hættu á magasárum og hrossasótt. Það er því mikilvægt að hægt sé að fóðra hesta í miklu þjálfunarálagi eingöngu á gróffóðri sem er hestinum eðlilegra og hefur jákvæð áhrif á meltingarfæri hans, líðan og hegðun,“ segir um rannsókn Önnu á vefnum.

Anna Jansson sem er leiðbeinandi Guðrúnar við doktorsverkefni hennar, var valin í undirbúningsnefnd fyrir næstu ICEEP-ráðstefnu sem verður haldin í Ástralíu árið 2018. „Þetta er mikill heiður því aðeins fremstu einstaklingar á sviði þjálfunarlífeðlisfræðirannsókna á hestum á heimsvísu komast í þennan undirbúningshóp,“ segir loks á síðu Hólaskóla.

Fleiri fréttir