Hollvinasamtök HS lýsa yfir megnri óánægju
Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki lýsa yfir megnri óánægju með ákvörðun heilbrigðisráðherra um sameiningu stofnunarinnar í Heilbrigðisstofnun Norðurlands frá og með 1.okt.n.k. Samtökin sendu frá sér yfirlýsingu þar að lútandi sl. þriðjudag, sem fjallað er um á forsíðu 27. tbl Feykis sem út kom í dag.
Vitna samtökin í frétt á heimasíðu Velferðarráðuneytisins um setningu reglugerðar þar að lútandi, þar sem segir orðrétt:„Markmiðið með sameiningu heilbrigðisstofnana er að styrkja rekstrar- og stjórnunareiningar, auka öryggi í búa með góðri heilbrigðisþjónustu og nýta fjármuni betur. Með sameiningum færist ákvarðanataka í auknum mæli frá ráðuneyti til heimamanna. Í aðdraganda sameininganna munu verðandi forstjórar ásamt starfsmönnum ráðuneytisins hafa samráð við sveitarstjórnarmenn á viðkomandi svæðum.“
Telja samtökin þessi markmið ekki trúverðug: „Rekstrar- og stjórnunarumhverfi stofnunarinnar mun veikjast þar sem ákvörðunarvaldið færist fjær henni. Öryggi íbúanna verður frekar ógnað þar sem fara þarf um langan veg til að nálgast ýmsa þjónustu sem nú er til staðar í heimabyggð. Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu almennt mun aukast eftir því sem íbúar þurfa að fara um lengri veg til að sækja sér þjónustuna, með tilheyrandi vinnutapi og óhagræði fyrir íbúana. Stjórnunarvald stofnunarinnar mun færast fjær og ákvarðanavald heimamanna mun því veikjast til muna,“ segir í yfirlýsingunni frá samtökunum.
Benda samtökin á að nú þegar sé erfitt að fá lækna og hjúkrunarfólk til starfa á landsbyggðinni og telja að sameiningin muni auka enn frekar á þá erfiðleika og leiða til enn frekari brottflutnings menntaðs starfsfólks þeirra og þannig veikja enn frekar byggðirnar umhverfis þær
„Það er með öllu ólíðandi að ráðherra og ráðuneyti hans skuli fara fram með þeim hætti sem raun ber vitni. Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki skora á ríkisstjórn Íslands að grípa inn í þann óheillafarveg sem málið er komið í og ljúka nú þegar þeim viðræðum sem hafnar eru við Sveitarfélagið Skagafjörð um yfirtöku á rekstri HS og hlusta á vilja heimamanna,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.