Hólmfríður Sveinsdóttir tók við viðurkenningu fyrir hönd Sjávarútvegsráðstefnunnar

Fyrir helgi afhenti Íslenski Sjávarklasinn viðurkenningar til aðila sem hafa eflt samstarf innan klasans og hlutu að þessu sinni þrír aðilar viðurkenningar. Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar, tók við viðurkenningu fyrir hönd Sjávarútvegsráðstefnunnar sem hún hlaut fyrir brautryðjandastarf við að tengja fólk í sjávarútvegi saman. Aðrir sem fengu viðurkenningu voru Spark og Navís.
„Ég hef verið viðriðin Sjávarútvegsráðstefnuna, SÚR, frá upphafi, hef haldið erindi, stjórnað og skipulagt málstofur og haldið utan um Hvatningarverðlaun SÚR. Síðustu tvö ár hef ég verið í stjórn og núna síðast er ég stjórnarformaður. Valdimar Ingi Gunnarsson er framkvæmdastjóri og eini starfsmaður ráðstefnunnar og að mínu mati hefur Valdimar unnið mikið þrekvirki í að gera Sjávarútvegsráðstefnuna að þeim gríðarlega öfluga vettvangi sem hún er í dag,“ sagði Hólmfríður í samtali við Feyki.
„Ég er mjög ánægð að SÚR skuli hljóta þessi verðlaun þar sem SÚR hefur verið í gegnum tíðina sá vettvangur þar sem flestir þeir aðilar sem eitthvað hafa með sjávarútveg að gera, hvort sem þeir koma úr greininni, þjónustu fyrirtækjum, rannsóknastofnun, menntastofnunum koma saman til að fjalla um sjávarútveg. Ráðstefnan hefur stækkað mikið og er árlega haldin í Hörpu í nóvember og á síðasta ári átti hún 10 ára afmæli.“
Sjá nánar HÉR