Hreinsunarátak á Hofsósi

Gámasvæðið á Hofsósi er við áhaldahúsið utan við ána. Mynd:FE
Gámasvæðið á Hofsósi er við áhaldahúsið utan við ána. Mynd:FE

Sveitarfélagið Skagafjörður og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra standa nú í sameiningu fyrir hreinsunarátaki á Hofsósi. Átakinu er ætlað að standa dagana 10. - 14. maí og hefur verið óskað eftir samvinnu við íbúa, lóðareigendur og fyrirtæki og þeir beðnir að fjarlægja ónýta og óþarfa hluti í því skyni að gera þorpið sem snyrtilegast.

Í tilkynningu um átakið segir að það rusl sem ekki verði fjarlægt af hálfu landeigenda eða lóðarhafa verði fjarlægt á kostnað eigenda sinna. Undanfarna daga hefur heilbrigðiseftirlitið farið um þorpið og límt áminningarmiða á númerslausar bifreiðar þar sem veittur er tveggja vikna frestur til að bregðast við, að öðrum kosti verði þær fjarlægðar á kostnað eigenda sinna og komið fyrir á geymslusvæði sveitarfélagsins þar sem þær verða geymdar í 45 daga áður en þeim verður fargað. Verkefni þetta á sér stoð í reglugerð um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 941/2002 þar sem stendur meðal annars:

Hreinlæti á lóðum og opnum svæðum.
                           20. gr.

Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.

Þeir sem annast flutninga á almannafæri, skulu haga þeim þannig að ekki valdi óþrifnaði.
                                                                                               21. gr.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum.

Einnig er vísað til reglugerðar um meðhöndlum úrgangs nr. 737/2003, einkum 16. greinar. 

Að sögn Indriða Þórs Einarssonar, sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs hjá Sveitarféalginu Skagafirði er áætlað að gera samskonar átak víðar í sveitarfélaginu í framhaldinu. Einnig segir Indriði að hjá sveitarfélaginu sé nú unnið að merkingum gámasvæða þar sem koma á upp skiltum með helstu reglum varðandi flokkun og almenna umgengni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir