„Hrognkelsið er enginn silakeppur“ - fyrirlestur um umfangsmiklar rannsóknir á grásleppu
James Kennedy, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun, flytur erindi nk. fimmtudag sem nefnist: Hrognkelsið er enginn silakeppur: göngur, lóðrétt far og veiðistjórnun á hrognkelsi við Ísland. Hægt verður að fylgjast með fyrirlestrinum í gegnum fjarfundabúnað í Námstofu sveitarfélagsins Skagastrandar í Gamla Kaupfélaginu.
Fyrirlesturinn hefst kl. 12:30 og eru allir áhugasamir boðnir velkomnir að fylgjast með.
Í erindinu, sem flutt verður á ensku, verður fjallað um umfangsmiklar merkingarannsóknir á grásleppu sem Biopol á Skagaströnd og Hafrannsóknastofnun hafa staðið að um árabil. Notuð voru hefðbundin fiskmerki en einnig rafeindamerki sem geta safnað ítarlegum upplýsingum um hitastig og dýpi sem fiskurinn heldur sig á.
Meðal annars kemur fram að hrognkelsi eru fær um að synda töluverðar vegalengdir á dag og þá stunda þau einnig lóðréttar dægurferðir. Auk merkingarannsókna verður fjallað um aðferðir sem beitt er við stjórnun veiða á hrognkelsi en hrognkelsaveiðar hafa verið stundaðar við Ísland um árabil aðallega vegna grásleppuhrogna.
Á vef Hafrannsóknarstofnunar má finna ágrip af erindinu sem nefnist á ensku: Cyclopterus lumpus is no lazy lump: migration, vertical activity and management of lumpfish in Iceland.