Hrossum bjargað úr Unadal
Mikill björgunarleiðangur var gerður út í vikunni til að bjarga hrossum í Unadal í Skagafirði en þar voru þau í sjálfheldu vegna mikilla snjóa sem gerði í lok síðustu viku. Fella þurfti eitt hrossið vegna lélegs ástands.
Björgunarsveitin Grettir á Hofsósi var kölluð út s.l. sunnudag til að ná hrossum úr afréttargirðingu við Hraun í Unadal en þangað höfðu þau verið rekin eftir réttir í haust. Þegar þangað var komið varð ljóst að mörg hross vantaði í hópinn og varð gerður út leiðangur snjósleðamanna til að finna þau en þá voru þau komin mjög innarlega í dalinn. Jarðbönn voru alger þar sem mikill snjór hafði lagst yfir beitrlandið í hretinu sem gekk yfir Norðurland í lok síðustu viku. Sagði einn björgunarmanna að svo mikill hefði snjórinn verið að náð hafi í mitti og upp í það að vera mannhæðarháir skaflar.
Ekki var hægt að koma hrossum til byggða vegna ófærðar en ákveðið að koma heyji til þeirra og var þeim gefið í þrjá daga meðan braut var mokuð til þeirra. Farið var með dráttarvélar ýmist með snjóblásara eða skóflu til verksins og tók það tvo daga að komast að hrossunum, sem voru frelsinu fegin.
Ástand hrossanna var þokkalegt miðað við aðstæður utan einnar merar sem að mati dýralækna var mjög bagalegt og var hún felld í gær. Að sögn Bjarna Þórissonar fjallskilastjóra var ástand afréttarinnar gott fyrir hretið en eðlilega voru hrossin svöng eftir volkið. Bjarni segir að hross séu höfð í afréttinni eftir réttir með samþykki fjallskilastjórnar með því skilyrði að bændur gæti þess að koma þeim í öruggt skjól ef veðurspá er þannig að svona ástand geti skapast. Þarna hafi það ekki gengið eftir og segir Bjarni að hann sem fjallskilastjóri beri ábyrgð á því að koma hrossunum til byggða þegar svona stendur á.
–Ég er ekki viss um að ég treysti mér til þess að bera þessa ábyrgð í framtíðinni, þegar bændur sjá sér ekki fært að axla ábyrgð og fyrirbyggja að þetta gerist, segir Bjarni en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem björgunarsveit er kölluð út vegna svipaðra aðstæðna. Aðspurður hvort afréttinum verði lokað fyrir haustbeit í framtíðinni segir Bjarni það koma sterklega til greina og væri þá hægt að nýta sumarafréttina meira. Bjarni vill koma þökkum á framfæri til björgunarsveitarmanna og annarra sem að þessari aðgerð komu.