Hugleiðingar um Stjórnarskrá
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands
1944 nr. 33 17. júní
20. gr. Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.
Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.
Það er alveg ljóst að nú hefur erlendur ríkisborgari verið skipaður Seðlabankastjóri. Ekki veit ég mikið um mannkosti þessa tiltekna manns eða starfshæfni og skal hvorugt dregið hér í efa. Stjórnarskráin er samt nokkuð skýr hvað þetta varðar, þ.e. „engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt". Hvernig ætlar Norðmaður annars að vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskrá Lýðveldis Íslands? Þetta þykir sumum sjálfsagt smásmyglislegt í ljósi aðstæðna, en hingað til hefur Stjórnarskráin vegið þungt í rökræðu líðandi stundar. Stjórnarskráin hefur vísað til gilda sem ekki verður haggað eða um samið. Eftir umræðu liðinna vikna um að bráðnauðsynlegt væri að taka Stjórnarskrána til ærlegrar endurskoðunar, virðist sem einhverjir hafi talið óþarft að bíða þeirrar vinnu.
Spyrja má hvort bankahrunið hafi orðið vegna vankanta stjórnarskrárinnar? Uxu bankarnir íslenska hagkerfinu um öxl vegna stjórnarskrárinnar? Var ekki hægt að hafa eftirlit með fjármálastofnunum vegna takmarkana sömu stjórnarskrár? Ég held ekki og þess vegna hafna ég því að fyrstu viðbrögð okkar eigi að vera gjörbylting á stjórnarskránni. Tel frekar að Alþingi og þjóðin eigi að beina athygli sinni að úrlausn aðsteðjandi vanda. Þar trjóna hæst fjárhagur ríkissjóðs með tilheyrandi niðurskurði útgjalda, endurlífgun bankanna og viðreisn atvinnulífsins, framtíðarskipulag peningastjórnunar og auðvitað spurningin um framtíðar mynt. Ekkert af þessu er einfalt, sársaukalaust eða auðvelt og þess vegna er hætta á því að stjórnlagaþing með tilheyrandi kostnaði muni draga athyglina frá mikilvægastu verkefnunum.
Stjórnaskrá ætti að vera í stöðugri endurskoðun og endurmati , enda breytast tímarnir hratt. Slíkt er vel hægt án þess að halda umrætt stjórnlagaþing. Þingmenn hafa hugsanlega verið full íhaldsamir þegar þeir hafa fjallað um endurskoðun stjórnarskrárinnar og e.t.v. mætti það breytast.
Það stendur þó eftir að stjórnarskráin er skjal sem við virðum og leggjum til grundvallar öðrum lögum landsins. Þar er m.a. kveðið á um þrískiptingu ríkisvaldsins, embætti forseta Íslands, starf Alþingis, dómsvald, trúfrelsi, mannréttindi og þar á meðal tjáningarfrelsið. Hingað til hefur það vegið þungt í huga okkar ef meint brot eru á stjórnarskrárbundnum réttindum en það er leitt hafi einhver breyting orðið þar á.
Helgi Kr. Sigmundsson
Höfundur tekur þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.