Húnar á hálendisvaktinni
Á sunnudaginn fór hópur frá Björgunarsveitinni Húnum í Húnaþingi vestra á svæði norðan Vatnajökuls til að taka þátt í Hálendisvaktinni. Þátttaka Húna er orðin að föstum lið í starfseminni en þetta er tíunda árið í röð sem hópur er sendur frá sveitinni í Hálendisvaktina.
Með í för Húna eru félagar úr Björgunarsveitinni Strönd á Skagaströnd og tveir menn frá systursamtökum Landsbjargar í Wales. Hópurinn var varla mættur á Hálendisvaktina í gær er fyrsta aðstoðarbeiðni barst. Um var að ræða bilaðan rússneskan eðalvagn. Framhjólin voru ekki samstíga hvert skildi stefna eins og fram kemur á fésbókarsíðu Húna og sjá má á meðfylgjandi mynd sem þaðan er fengin.
