Húnaþing vestra auglýsir deiliskipulag fyrir Flatnefsstaði
Á fundi sínum þann 18. október sl. samþykkti sveitarstjórn Húnaþings vestra að auglýsa tillögu að deiliskipulagi í landi Flatnefsstaða á Vatnsnesi. Svæðið sem um ræðir er 90 hektarar að stærð og nær yfir hluta jarðarinnar Flatnefsstaðir á vestanverðu Vatnsnesi.
Í greinargerð með deiliskipulaginu segir: „Skipulagssvæðið nær yfir hluta jarðarinnar Flatnefsstaðir (landnúmer 144531) á vestanverðu Vatnsnesi í Húnaþingi vestra. Skipulagssvæðið afmarkast nokkuð vestan við vegslóða sem liggur í gegnum land Flatnefsstaða af Vatnsnesvegi og liggur niður að sjó. Jörðin Flatnefsstaðir og þar með skipulagssvæðið liggur að landamerkjum jarðanna Saurbær í austri og Tjörn í vestri."
Svæðið hefur ekki verið viðkomustaður ferðamanna, að því er segir í greinargerð, en þykir tilvalið til selaskoðunar og er því verið að skipuleggja það sem selaskoðunarstað. Því er þörf á að útbúa aðstöðu fyrir ferðamenn sem um svæðið fara og bæta aðgengi.
Tillagan, ásamt fornleifaskýrslu, verður til sýnis í Ráðhúsi Húnaþings vestra og á heimasíðunni hunathing.is frá 30. október 2018 til 11. desember 2018.
Athugasemdir og ábendingar við deiliskipulagstillöguna skulu vera skriflegar. Þær skulu berast í síðasta lagi 11. desember 2018 til skrifstofu Húnaþings vestra, Hvammstangabraut 5, 530 Hvammstanga eða á netfangið: skrifstofa@hunathing.is þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.