Húnaþing vestra mótmælir drögum að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu

Sveitarstjórn Húnaþings vestra tók fyrir á fundi sínum þann 9. maí sl. bókun byggðarráðs frá 6. þ.m. varðandi verkefni þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu, mál nr. S-111/2019. Leggst sveitarstjórn gegn fyrirliggjandi drögum og hvetur til að þau verði endurskoðuð í mun nánara samstarfi við heimamenn en gert hefur verið.

Í bókun sveitarstjórnar kemur m.a. fram að í drögunum sé töluverður hluti af skipulagsvaldi sveitarfélaga tekinn í burtu og við það verði ekki unað. Bent er á að drögin miði einungis við einn stóran þjóðgarð á miðhálendinu í stað þess að skoða hvernig smærri og fleiri þjóðgarðar kæmu út í samanburði. Einnig er bent á að ekki komi fram í drögunum hvernig þjóðgarðurinn skuli verða fjármagnaður.

Þá leggst sveitarstjórn gegn drögum að atvinnustefnu Vatnajölkulsþjóðgarðs og samþykkti svohljóðandi bókun þar að lútandi:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra leggst gegn fyrirliggjandi drögum að atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs og hvetur til þess að þau verði endurskoðuð í mun nánara samstarfi við heimamenn en verið hefur.
Í drögum að atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs virðist vera afar lítið gert úr vægi sveitarfélaga og landeigenda og virðist helst sem allir atvinnurekendur á svæðinu þurfi sérstakt atvinnuleyfi frá stjórn þjóðgarðsins, burtséð frá því hver atvinnustarfsemin er og hverjar skoðanir heimafólks eru.
Verður því að líta svo á að þarna séu sveitarfélögum og landeigendum settar verulegar og hamlandi skorður, til dæmis varðandi beitarrétt og veiðar, og að viðkomandi aðilar missi þar með drjúgan umráðarétt yfir sínu landi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir