Húnavaka á Blönduósi

Húnavaka verður haldin dagana 19.-22. júlí næstkomandi. Dagskrá Húnavöku er stútfull og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Dagskráin er með svipuðu sniði og undanfarin ár, þó alltaf séu einhverjar breytingar. Feykir heyrði í Kristínu I. Lárusdóttur sem sér um skipulagningu hátíðarinnar.

,,Húnavakan byrjar á fimmtudagskvöldi á BlöQuiz í Félagsheimilinu á Blönduósi.

Fyrirtækjadagurinn slær alltaf í gegn á föstudeginum og mun fjöldi fyrirtækja á staðnum taka þátt í honum. Á föstudagskvöldi verður svo kótelettukvöld í Félagsheimilinu á Blönduósi, en það var haldið í fyrsta sinn í fyrra og mættu rúmlega 200 manns til að gæða sér á kótelettum. Eftir kótelettukvöldið verður fjölskyldudansleikur með hljómsveitinni Stuðlabandinu sem mun einnig vera með stórdansleik í félagsheimilinu um kvöldið fyrir 16 ára og eldri.

Opna Gámaþjónustumótið í golfi hefst svo kl. 9 á laugardagsmorgun, Skotfélagið Markviss verður með opið hús, Blönduhlaupið verður á sínum stað og bókamarkaður á Héraðsbókasafninu. Skemmtidagskrá verður á bæjartorginu ásamt markaðsstemningu. Munu meðal annars BMX brós sýna listir sínar, Lalli töframaður skemmtir, hoppukastalar verða fyrir börnin og hestaleigan Galsi teymir undir hjá börnum ásamt söngkeppni barna, Míkróhúninum, en að vanda eru glæsileg verðlaun í boði Símans.

Eyþór Franzson Wechner verður með orgeltónleika í kirkjunni þar sem hann flytur söngleikja- og kvikmyndatónlist. Hápunkturinn er svo kvöldvakan sem haldin verður í Fagrahvammi en þar mun Lalli töframaður skemmta, Karitas Harpa syngur nokkur lög, varðeldur og Sverrir Bergmann og Halldór Fjallabróðir stýra brekkusöng.

Á sunnudeginum verður prjónaganga á vegum Textílsetursins. Leikhópurinn Lotta mætir með sýningu sumarsins GOSA og verður frítt inn fyrir alla á þá sýningu. Sápurennibraut fyrir börn verður í kirkjubrekkunni og afhjúpað verður upplýsingaskilti í kirkjugarðinum á Blönduósi um sögu garðsins.

Minjastofa Kvennaskólans, Vatnsdæla á refli og Heimilisiðnaðarsafnið verða opin alla helgina.

Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi um helgina og hvetjum við alla til að mæta og hafa gaman," segir Kristín að lokum. 

Allar upplýsingar og dagskrá Húnavöku er hægt að nálgast á Facebooksíðu Húnavöku og á Húnahorninu (www.huni.is)

/Lee Ann

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir