Húnavatnshreppur auglýsir tillögu að deiliskipulagi við Þingeyraklausturskirkju

Á Þingeyrum. Mynd: Páll Jakob Líndal. Skjáskot úr Tillögu að deiliskipulagi Þingeyraklausturskirkju.
Á Þingeyrum. Mynd: Páll Jakob Líndal. Skjáskot úr Tillögu að deiliskipulagi Þingeyraklausturskirkju.

Húnavatnshreppur hefur auglýst tillögu að deiliskipulagi við Þingeyraklausturskirkju í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar hreppsins frá 11. apríl sl. Tillagan samanstendur af skipulagsuppdrætti og greinargerð og eru allar meginforsendur deiliskipulagsins í samræmi við Aðalskipulag Húnavatnshrepps 2010–2022, að því er segir í auglýsingunni.

Í tillögunni segir svo um kirkjuna sem telst vera sérlega áhugaverður viðkomustaður ferðamanna í Austur-Húnavatnssýslu: „Þingeyraklausturskirkja er hlaðin úr grjóti og var reist á árunum 1864–1877 og þykir með merkustu kirkjum á landinu. Kirkjan er friðlýst samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.
Kirkjan stendur í kirkjugarði sem vígður var árið 1914 og umhverfis hann er uppsteypt rimlagirðing frá árinu 1967. Skömmu eftir síðustu aldamót var lagður stígur innan kirkjugarðsins. Þjónustuhús kirkjunnar - Klausturstofa - stendur norðan við kirkjuna. Húsið var vígð árið 2006 og þar er móttaka, salerni, búningsaðstaða fyrir presta, geymslur fyrir kirkju og kirkjugarð, og fundarsalur.“

Viðfangsefni deiliskipulagsins er að gera tillögu að aðkomuleiðum, bílastæðum, göngustígum, torgi og veggjum, gera tillögu að umhverfi þjónustuhúss, staðsetja byggingarreit fyrir geymslu og setja fram skilmála um húsgerð. Í tillögunni segir að megináherslur skipulagsins séu að uppbygging bæti ásýnd staðarins, rýri ekki staðhætti, landslag og menningarminjar. Lögð er áhersla á að aðgengi að byggingum sé gott og greina skal skýrt á milli akandi og gangandi umferðar. Dregið skal úr truflun vegna akandi umferðar eins og kostur er og kyrrstæðir bílar staðsettir með þeim hætti að þeir spilli sem minnst útsýni og umhverfisgæðum.

Tillagan liggur frammi til kynningar frá 16. maí til 1. júlí nk. á skrifstofu Húnavatnshrepps að Húnavöllum í Húnavatnshreppi og hjá skipulagsfulltrúa að Hnjúkabyggð 33 á Blönduósi. 

Ennfremur er tillagan aðgengileg á heimasíðu Húnavatnshrepps, www.hunavatnshreppur.is. Frestur til að skila athugasemdum er til 1. júní nk. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast til skrifstofu skipulagsfulltrúa, Hnjúkabyggð 33, 540 Blönduósi. Nánari upplýsingar veitir Þorgils Magnússon, skipulagsfulltrúi í Húnavatnshreppi, byggingarfulltrui@hunavatnshreppur.is, sími 455 4700.

Tillöguna að deiliskipulaginu má nálgast hér.

Deiliskipulagsuppdrátt er að finna hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir