Húsfyllir á útgáfuhátíð Byggðasögunnar
Útgáfuhátíð Byggðasögu Skagafjarðar var haldin að Sveitasetrinu á Hofstöðum í gærkvöldi. Húsfyllir var og gerðu gestir góðan róm að atriðum sem boðið var upp á.
Afhenti ritstjórinn, Hjalti Pálsson, Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrsta eintak 5. bindis Byggðasögunnar. Upplesarar úr Rípurhreppi og Viðvíkurhreppi lásu valda kafla úr bókinni. Til skemmtunar var einnig einsöngur, harmonikuleikur og gítarspil.
Gestir þáðu kaffi og gómsætar veitingar í hléi í boði Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Bókin fer nú í almenna dreifingu og verða sölumenn Sögufélagsins á ferðinni í Skagafirði næstu daga.
Sendur verður kynningarbæklingur á hvert heimili í Skagafirði. Bókin verður einnig til sölu hjá útgáfunni í Safnahúsinu á Sauðárkróki.
Myndir: Sögufélag Skagfirðinga