Húsnæði Háholts tilbúið fyrir nýtt hlutverk
Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum undanfarna daga stendur til að gera 500 milljóna króna samning til næstu þriggja ára við meðferðarheimilið Háholti í Skagafirði. Þar verður á þessu tímabili boðið upp á vistun ungra fanga, í stað þess að þeir afpláni í hefðbundnum fangelsum eins og nú er raunin.
Er samningurinn til kominn vegna ákvörðunar alþingis um að löggilda samning sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Löggildingin hefur í för með sér að yfirvöldum er uppálagt að hafa tilbúið úrræði er fullnægir þörfum um afplánun og samræmist hugmyndum um afplánun í meðferð. Því hefur Barnaverndarstofa ákveðið að Háholt verði hvort tveggja í senn meðferðarheimili og afplánunarstaður fyrir börn sem fá óskilorðsbundna dóma. Í því fellst ákveðin hagræðing og samnýting á húsnæði og mannafla.
Í fjölmiðlaumfjöllun um málið hefur komið fram að Barnaverndarstofa hafi lagst gegn ákvörðuninni en jafnframt að barnaverndarnefndir um allt landi hafi lýst ánægju sinni með 15 ára faglegt starf Háholts og að þar sé mikil fagleg þekking til staðar og starfsemin öll fari faglega fram. Húsnæðið er nú um það bil að verða tilbúið til að gegna nýju hlutverki en hingað til hefur einungis verið rekið þar meðferðarheimili.
Á Háholti geta dvalið allt að þrjú börn í einu en geta orðið fjögur við tilkomu nýs hlutverks. Það sem af er ári er nýtingahlutfallið 70%. Ellefu starfsmenn starfa á Háholti í dag í rúmlega níu stöðugildum, auk kennara og sálfræðings í hlutastarfi. Starfsmenn hafa gegnum tíðina sótt sér mikla fagþekkingu og starfsmannavelta er lítil á staðnum. Þá er viðbragðstími lögreglu mjög stuttur, þar sem heimilið er staðsett skammt frá Sauðárkróki.