Hvalreki á Skaga

Steypireyð rak á land við eyðibýlið Ásbúð á Skaga á dögunum en það voru fornleifafræðingar frá Byggðasafni Skagafjarðar sem fundu hvalinn í gær. Dýrið sem er að líkindum kýr er 22,8 metrar á lengd sem fróðir menn segja að þýði að dýrið sé að nálgast kynþroskaaldur.

Þegar Feyki bar að garði voru þau Guðmundur Stefán Sigurðsson, fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagafjarðar, Bryndís Zoega landfræðingur og Þórdís Vilhelmína Bragadóttir frá Náttúrustofu Norðurlands vestra að mæla dýrið og taka úr því sýni fyrir Hafrannsóknunarstofnun.

Að sögn Guðmundar hefði hvalreki sem þessi fyrir 100 árum líklega verið tilefni til veisluhalda á Skaga en í dag þykir hann ekki matur enda hefur dýrið líklega rekið dautt á land. –Það er engin lykt af dýrinu svo líkilega er einhver tími síðan það drapst og þar af leiðandi væri kjötið ekki hæft til manneldis, segir Þórdís Vilemína.

Að sögn Þórdísar verður dýrið ekki fjarlægt heldur látið rotna niður í fjörunni en að líkindum munu straumar og sjávarföll sjá fyrir að því verki verði flýtt og að líkindum ættu ummerki hans að vera horfin strax næsta vor.

Þauð Guðmundur og Bryndís segja aðspurð að þau hafi ekki gert ráð fyrir fundi sem þessum þegar þau héldu út á Skaga í gærmorgun til þess að skrá fornmynjar fyrir aðalskipulag Skagabyggðar. –Þetta var klárlega toppurinn á vikunni ef ekki sumrinu, segir Bryndís og hlær.

Þegar Feyki var að garði stóðu þau Bryndís og Guðmundur ofan á dýrinu og segir Guðmundur að það hafi verið bæði hlaupkennd og sérkennileg lífsreynsla enda sé það ekki á hverjum degi sem tækifæri gefist á að standa ofan á stærsta spendýri veraldar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir