Hvar á ég að búa? - Áskorandinn Vera Ósk Valgarðsdóttir Skagaströnd

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Aldrei hefði mig órað fyrir því fyrir nokkrum árum síðan að ég ætti eftir að búa á Skagaströnd í heil fimm ár. Komandi frá einum af fáum stöðum á Íslandi sem ekki liggja að sjó, þá hafa þessi ár vissulega kennt mér margt er varðar lífið í litlu sjávarplássi úti á landi. 

Í þessu samhengi er áhugavert að velta fyrir sér hvað gerir stað eftirsóknarverðan til búsetu. Hvernig fáum við unga fólkið til að íhuga þann möguleika að setjast að á litlum stað eins og Skagaströnd sem hefur allt til alls, fallega náttúru og fengsæl fiskimið?

Nýlega heyrði ég talað um svokallað Cittaslow sem er hreyfing er leggur áherslu á manneskjuleg gildi og staðbundna menningu og vitund fyrir umhverfinu. Sveitarfélög sem aðhyllast Cittaslow hefja náttúru og menningu staðar síns til vegs og virðingar. Áhersla er lögð á að skapa möguleika til að dvelja í hreinu, öruggu og ekki síst uppbyggilegu umhverfi með samkennd, samvinnu og sanngirni í forgrunni. Sérstaða náttúrunnar, flokkun og endurvinnsla sorps og fegrun umhverfis eru allt þættir sem taldir eru mikilvægir í Cittaslow ásamt því að tryggja fjölbreytni í atvinnumálum, einkum vistvænum. Það er t.d. reynt eftir megni að nýta gamlar byggingar og finna þeim nýtt hlutverk. Nýta það sem fyrir er.  Í Cittaslow sveitarfélögum fara skólar ekki varhluta af þessari hreyfingu. Þar er lögð áhersla á flokkun og endurnýtingu, umhverfisvernd, grenndarnám og markvisst unnið með menningu staðarins, örnefni, atvinnu og sögu.

Það er gaman að velta þessu fyrir sér og máta þessa stefnu eða hreyfingu við Skagaströnd.   Það telst gjarnan kostur að búa við hringveginn en það er einnig kostur að búa EKKI við hringveginn. Það er einmitt í anda Cittaslow að byggja svæðið þannig upp að fólk taki á sig krók til að koma og njóta umhverfis og menningar staðarins en ekki bara til að taka bensín og fara í verslun.

Á Skagaströnd er mjög gott að búa en þar þarf, eins og alls staðar, að vera á tánum með að gera góðan stað betri. Hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Það er auðvelt að stinga hausnum í sandinn og hugsa með sér að þetta reddist allt saman.  Í þeim ys og þys sem einkennir þéttbýlissvæðin væri það góður kostur að setjast að á Skagaströnd þar sem náttúran skartar ætíð sínu fegursta.

Vera Ósk skorar á Söru Diljá Hjálmarsdóttur, kennara við Höfðaskóla, að skrifa pistil.

Áður birst í 13. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir