Hvernig eflum við mannauðinn?

Það dýrmætasta sem við eigum er góð heilsa. Hér á orðatiltækið ,,enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ einstaklega vel við. Að vera hluti af heild, hvort sem það er á vinnustað eða í félags- og tómstundastarfi, tel ég afar mikilvægt, því öll viljum við eiga samleið með öðrum í gegnum lífið. Nú á tímum er aukin umræða um mikilvægi andlegrar heilsu og áhrif hennar á líkamlega heilsu einstaklings.

Við fulltrúar ByggðaListans teljum mikilvægt að sveitarfélagið sé leiðandi í því að halda vel utan um starfsfólk sitt og skapa aðstæður þar sem einstaklingar geti komið skoðunum sínum á framfæri og fengið áheyrn, komið skoðunum sínum á framfæri og handleiðslu/ráðgjöf ef þörf þykir. Við teljum að samfélagið okkar geti verið leiðandi í því að skapa góðar aðstæður fyrir starfsfólk með markvissu lýðheilsustarfi. Bætt heilsa og vellíðan stuðlar að betra starfsumhverfi og gerir störfin eftirsóknarverðari. Sveitarfélagið Skagafjörður gerðist heilsueflandi samfélag árið 2019 og teljum við tækifæri leynast í því að skipa teymi sem veitir starfsfólki okkar ráðgjöf og stuðning. Þar yrði horft til bæði líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðunar starfsfólks. Við þurfum að ná utan um fólkið okkar sem oft á tíðum vinnur undir miklu álagi. Þessi vinna verður sérstaklega mikilvæg á næstu misserum, þar sem útlit er fyrir að langtímaáhrif Covid-19 verði síst minni en af faraldrinum sjálfum.

Lífaldur fer hækkandi og er það fagnaðarefni. Mikilvægt er að sveitarfélög komi vel að þjónustu við eldri borgara þar sem þau hafa jú plægt akurinn fyrir okkur sem tökum við góðu búi samfélagsins. Að mæta þessum hóp með þjónustu um allt hérað í formi fæðis- og akstursþjónustu og að allir hafi jöfn tækifæri til að taka þátt í félags- og tómstundastarfi óháð búsetu eða aldri, finnst okkur grundvallaratriði í nútíma samfélagi. Við fulltrúar ByggðaListans teljum mikilvægt að mæta einstaklingum eftir þörfum og skapa aðstæður þar sem allir geta blómstrað í leik og starfi.

Þau okkar sem ekki búa við hamlanir af einhverju tagi verða oft óþarflega lítið vör við það sem betur mætti fara í okkar samfélagi svo allir meðlimir þess hafi jafnt aðgengi að því sem við tökum oft á tíðum sem sjálfsögðum hlut. Eins og til dæmis að komast leiðar sinnar við hversdagslegar iðjur og sinna félags- og tómstundastarfi. Að lenda skyndilega í því að þurfa að berjast fyrir tilvist sinni eða fjölskyldumeðlims er eitthvað sem enginn er undirbúinn fyrir. Það er því til skammar að skert aðgengi hreyfihamlaðra að stofnunum og eignum sveitarfélagsins komi í veg fyrir fulla þátttöku þeirra í samfélaginu, auk þess sem einstaklingar og aðstandendur þurfa ítrekað að þrýsta á að viðunandi aðgengi sé til staðar í leik- og grunnskólum. Við fulltrúar ByggðaListans viljum að framkvæmd verði úttekt á aðgengi í stofnunum og öðru húsnæði á vegum sveitarfélagsins og í framhaldinu sett markviss áætlun til úrbóta. Við viljum að sú úttekt miðist ekki einungis við aðgengi að byggingum, heldur gangi einnig út frá því að allir hafi kost á jöfnu aðgengi að félags- og tómstundastarfi við aðstæður sem eru í takt við 21. öldina.

Í Skagafirði er mannauðurinn mikill og krafturinn úr umhverfinu engu líkur. Við teljum Skagafjörð hafa allt til brunns að bera í því að vera framúrskarandi er kemur að lýðheilsu og ánægju starfsfólks og íbúa. Með því að hlusta á þarfir og sjónarmið íbúa og starfsfólks sveitarfélagsins getum við skapað framúrskarandi starfsaðstæður og gert sveitarfélagið okkar eftirsóknarvert til búsetu.

Jóhanna Ey Harðardóttir
Höfundur skipar 1. sæti ByggðaLista fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí næstkomandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir