Hyggst klára undirskriftasöfnun um helgina
Allir frambjóðendur til embættis forseta Íslands, nema Hannes Bjarnason, skiluðu undirskriftalistum til yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi í gær en Rúv greinir frá því að kjörstjórnir þar og í Suðurkjördæmi höfðu auglýst að frestur var gefinn til klukkan 15.
Hannes sagði í samtali við Rúv að hann hefði heldur ekki skilað listum í Suðurkjördæmi en að listunum yrði skilað á mánudag, á sama tíma og frestur til að skila undirskriftalistum í Reykjavíkurkjördæmunum rennur út.
Ástæða tafanna segir hann að væri meðal annars hátt flækjustig því reglur kveða á um að undirskriftum skuli safnað í hverjum landsfjórðungi en skilað til kjörstjórna í hverju kjördæmi. Þá er í sumum fjórðungum mörg kjördæmi og skila á frumriti undirskrifta í hverju og einu kjördæmi.
Hannes segist ekki enn hafa náð að safna tilskyldum fjölda meðmælenda en þeim fjölda hyggst hann ná um helgina.