Í svörtum fötum á Húnavöku
Nú er orðið ljóst að hljómsveitin Í svörtum fötum, verður aðalnúmerið á Húnavökunni í ár, með Júróvisjónfarann Jónsa í aðalhlutverki, Markvert ehf. sem hefur umsjón með skipulagningu hátíðarinnar greinir frá þessu.
Aðalballið verður á laugardagskvöldinu 21. júlí í íþróttahúsinu á Blönduósi og mun hljómsveitin koma fram ásamt stórsöngkonunni Ölmu Rut en fyrr um kvöldið munu þau Jónsi og Alma Rut einnig koma fram á kvöldvökunni.
„Um að gera að taka daginn frá því þetta verður svakalegt stuð!!,“ segir á heimasíðu Markvert.
Þess má geta að Markvert hefur boðað til fundar á morgun, þriðjudaginn 22. maí, með hagsmunaaðilum Húnavöku þar sem ræða á hvernig hægt er, með sameiginlegu átaki, að gera glæsilega hátíð enn glæsilegri. Fundurinn verður haldinn á Eyvindarstofu og hefst klukkan 17:00.