Íbúafundir um mótun menntastefnu í Sæluviku

Nú stendur yfir vinna við mótun nýrrar menntastefnu Skagafjarðar sem unnin er í samstarfi leik-, grunn- og Tónlistarskóla Skagafjarðar, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og frístundar. Boðið er til opinna íbúafunda um mótun menntastefnunnar til að fá viðhorf sem flestra inn  í stefnumótunarvinnuna og eru foreldrar nemenda á leik-, grunn- og framhaldsskólaaldri sérstaklega hvattir til þátttöku á fundunum.

Fundirnir eru haldnir á þremur stöðum og fór sá fyrsti fram í gær í Varmahlíðarskóla. Að sögn Helgu Harðardóttur, kennsluráðgjafa og verkefnastjóra, gekk fundurinn í Varmahlíð ljómandi vel en þangað mættu 16 manns. Þar var kynnt sú vinna sem farið hefur fram hjá menntastefnuteymi en í því eru fulltrúar frá öllum skólum Sveitarfélagsins Skagafjarðar; þremur leikskólum, þremur grunnskólum, tónlistarskólanum, FNV og frístund auk fræðsluþjónustunnar. „Við kynntum hvað við erum búin að vera að gera og síðan aðkomu íbúa að mótun menntastefnunnar. Í raun og veru er þetta opinn vettvangur fyrir fólk til að koma með hugmyndir inn í stefnumótunarvinnuna. Svo höfum við verið að vinna með starfsfólki skólanna og öllum nemendum þannig að við reynum að ná til sem flestra í þessari vinnu,“ segir Helga.

Í dag verður fundað í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra kl. 17:00 -18:00 og á sama tíma á fimmtudaginn í Grunnskólanum austan Vatna. Auk Helgu er Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi hjá Fræðsluþjónustu Skagafjarðar, einnig við stjórnvölinn á fundunum.

Allir hvattir til að mæta, kaffi og kleinur í boði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir