Íbúafundur á Hofsósi um verndarsvæði í byggð

A fundinum á morgun verður verkefnið um verndarsvæði í byggð á Hofsósi kynnt. Mynd:FE
A fundinum á morgun verður verkefnið um verndarsvæði í byggð á Hofsósi kynnt. Mynd:FE

Sveitarfélagið Skagafjörður boðar til opins íbúafundar á Hofsósi nk. miðvikudag, 30. maí, klukkan 17:00 þar sem kynna á verkefni um verndarsvæði í byggð á Hofsósi. Þar verður verklag og aðferðafræði verkefnisins kynnt og leitað samráðs við íbúa.

Verndarsvæði í byggð er byggð innan afmarkaðs svæðis sem nýtur samkvæmt ákvörðun ráðherra sérstakrar verndar vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis. Lög þess efnis tóku gildi árið 2015. Markmið þeirra eru að vernda menningarsöguleg og listræn verðmæti, bæta umhverfið og auka aðdráttarafl hverfa og bæjarhluta. Verkefnið skiptist í skráningu húsa og fornleifa ásamt greinargerð þar sem metið er varðveislugildi og gerðir skilmálar um vernd og uppbyggingu innan svæðisins. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur hlotið styrk frá Minjastofnun Íslands til að vinna tillögur að verndarsvæði í byggð, bæði á Hofsósi og á Sauðárkróki.

Íbúar og aðrir þeir sem áhuga hafa á verkefninu eru hvattir til að mæta á fundinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir