Íbúakosningar um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra

Á tímabilinu 28. nóvember til 13. desember nk. verða haldnar íbúakosningar um tillögu um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra. Samstarfsnefnd sveitarfélaganna hefur skilað áliti sínu sem er svohljóðandi:

„Dalabyggð og Húnaþing vestra eru lík að landkostum, íbúasamsetningu, búsetumynstri og atvinnulífi. Við sameiningu sveitarfélaganna yrði að mati nefndarinnar til öflugra sveitarfélag með sterkari stjórnsýslu, faglegri þjónustu og meiri slagkraft í hagsmunagæslu til að byggja upp innviði og auka fjölbreytni í atvinnulífi eins og sjá má í greiningargögnum samstarfsnefndar. Nefndin telur að sameining myndi stuðla að aukinni byggðafestu og auka aðdráttarafl fyrir nýja íbúa og starfsmenn. Helstu áskoranir sameinaðs sveitarfélags væru að tryggja jafnt þjónustustig, viðhalda staðbundnum sérkennum og tryggja að íbúar upplifi áfram nálægð og öryggi í þjónustu. Nefndin telur að mæta megi þeim áskorunum og leggur áherslu á að t.a.m. verði Húnvetningar áfram Húnvetningar og Dalamenn áfram Dalamenn þótt stjórnsýslueiningarnar tvær sameinist.

Fjárhagur sameinaðs sveitarfélags yrði sterkur og fjárfestingargeta þess betri en hjá sveitarfélögunum hvoru um sig. Sérstök sameiningarframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á næstu árum myndu auka svigrúm til fjárfestinga í sameinuðu sveitarfélagi, minnka þörf á lántöku og lækka fjármagnskostnað. Jafnframt hefur verið kynnt að reglubundin framlög Jöfnunarsjóðs munu hækka í sameinuðu sveitarfélagi ef af verður.

Það er samdóma álit samstarfsnefndar um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings vestra að sameining væri framfaraskref fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra“.

Íbúafundir

Haldnir verða íbúafundir til að kynna sameiningartillöguna, álit samstarfsnefndar og fyrirkomulag íbúakosninganna. Fundurinn í Dalabyggð verður haldinn í Dalabúð í Búðardal þann 17. nóvember kl. 17:00 og í Húnaþingi vestra verður fundurinn í Félagsheimilinu Hvammstanga 18. nóvember kl. 17:00. Fundunum verður streymt fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. Slóðir á fundina verða birtar á heimasíðum sveitarfélaganna og á http://dalhun.is á fundardag.

Opnunartími kjörstaða og póstkosning

Virka daga frá 28. nóvember til 12. desember verður kosið á skrifstofum sveitarfélaganna á opnunartíma þeirra.

Laugardaginn 29. nóvember verður kosið í Félagsheimilinu Hvammstanga að Klapparstíg 4 á Hvammstanga frá kl. 12:00-15:00.

Laugardaginn 6. desember verður kosið í Stjórnsýsluhúsi Dalabyggðar að Miðbraut 11 í Búðardal frá kl. 12:00-15:00.

Laugardaginn 13. desember verða svo kjörstaðir opnir í Félagsheimilinu Hvammstanga og í Stjórnsýsluhúsi Dalabyggðar frá kl. 09:00-17:00.

Talning fer fram á sömu stöðum þegar kosningu er lokið.

Íbúar sem sjá sér ekki fært að mæta á kjörstað geta óskað eftir því að greiða atkvæði með póstkosningu. Beiðni um póstkosningu skal berast í tölvupósti á netfangið yfirkjorstjorndaloghun@hunathing.is.

Kosningaréttur

Sveitarstjórnir sveitarfélaganna hafa samþykkt að kosningaaldur skuli miðast við 16 ár. Þeir íbúar sveitarfélaganna sem náð hafa 16 ára aldri á lokadegi kosninganna fá því að kjósa um sameiningartillöguna.

Rétt til þátttöku í íbúakosningum eiga íslenskir, danskir, finnskir, sænskir eða norskir ríkisborgarar sem eiga skráð lögheimili í því sveitarfélagi þar sem íbúakosning fer fram á hádegi 22 dögum áður en atkvæðagreiðsla hefst. Aðrir erlendir ríkisborgarar sem hafa átt skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir lokadag atkvæðagreiðslu eiga einnig rétt til þátttöku.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um sameiningarviðræður sveitarfélaganna og kosningarnar er að finna á upplýsingavef samstarfsnefndar https://dalhun.is.

Tengiliðir

Magnús Magnússon, formaður samstarfsnefndar, Húnaþingi vestra, s. 8672278
Ingibjörg Þóranna Steinudóttir, oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar, s. 8672646
Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, s. 6608245
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, s. 8621340

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir