Íbúaþing á Sauðárkróki 7. febrúar
„Mótum Sauðárkrók saman til framtíðar“er yfirskrift íbúaþings sem Sveitarfélagið Skagafjörður stendur fyrir og haldið verður í sal Fjölbrautarskóla NV, laugardaginn 7. febrúar næstkomandi og stendur frá kl. 10.00 til 15.00.
Íbúaþing er vettvangur þar sem allir íbúar hafa tækifæri til að koma sínum hugmyndum og ábendingum um þróun byggðar og samfélags á framfæri. Þar er safnað saman þeirri miklu þekkingu og visku sem býr í einu samfélagi. Íbúaþingið er haldið í tengslum við endurskoðun á aðalskipulagsuppdrætti fyrir Sauðárkrók og niðurstöður þess munu nýtast við gerð hans.
Á íbúaþinginu verður leitast við að svara þeirri spurningu hvernig íbúar Skagafjarðar vilja sjá höfuðstaðinn sinn þróast. Í hverju liggur sérstaða Sauðárkróks og hvaða tækifæri felast í þeim fjölbreytileika sem þar er að finna, t.d. varðandi búsetukosti, náttúru og mannlíf? Hver eru skilaboð íbúa til sveitarstjórnar um samfélagið, skipulagsmál, atvinnulíf og miðbæinn, svo eitthvað sé nefnt. Hvar telja íbúar að hægt sé að gera betur? Horft verður sérstaklega til þeirrar samfélagsþjónustu sem veitt er á staðnum og til atvinnulífs, auk þess sem unnið verður með framtíðarskipulag íbúðasvæða og svæða undir þjónustustarfsemi.
Boðið verður upp á barnagæslu og léttar veitingar verða til sölu á vægu verði
Það er óhætt að segja að þetta íbúaþing verður allt öðruvísi vettvangur en þeir hefðbundnu fundir sem fólk þekkir. Þátttakendur geta komið og farið að vild yfir daginn, tekið þátt í stuttan eða langan tíma og enginn þarf að halda ræður. Fyrir þingið verður unnið með nemendum í Árskóla og FNV og mun þeirra sýn á Sauðárkrók verða kynnt á þinginu.
Skilaboð íbúanna eru mikilvæg. Þau munu verða efniviður fyrir nýtt rammaskipulag Sauðárkróks, einnig verða mál sem fram koma á þinginu tekin til skoðunar hjá bæjarstjórn.
Umsjón með íbúaþinginu er í höndum ráðgjafarfyrirtækisins Alta sem einnig hefur umsjón með gerð rammaskipulags og endurskoðunar á aðalskipulagi fyrir Sauðárkrók.
Nú þegar íbúum Skagafjarðar er boðið upp á þann samræðuvettvang sem íbúaþing er, er mjög mikilvægt að sem flest sjónarmið heyrist. Á íbúaþing eiga allir erindi og hægt er að lofa fróðlegum, gagnlegum og skemmtilegum degi.
Íbúum býðst að senda inn tilllögur að umræðuefnum fyrir íbúaþingið á netfangið skagafjordur@skagafjordur.is fram til 5. febrúar.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veita Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðstjóri Markaðs- og þróunarsviðs Skagafjarðar, heidar@skagafjordur.is, sími 455 6065, Jón Örn Berndsen, skipulags- og byggingarfulltrúi, jobygg@skagafjordur.is, sími 455 6063, Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri Skagafjarðar, gudmundur@skagafjordur.is sími 455 6000 og Matthildur Kr. Elmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Alta, matthildur@alta.is, símar 582 5011.
Sjá einnig www.skagafjordur.is og www.alta.is eða www.ibuathing.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.