Iceprotein hlaut hvatningarverðlaun atvinnuþróunar SSNV 2014

Hvatningarverðlaun atvinnuþróunar SSNV voru afhent við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Miðgarði á þriðjudaginn. Verðlaunin eru í senn viðurkenning fyrir góðan árangur og hvatning til áframhaldandi starfsemi viðkomandi fyrirtækis, félags eða einstaklings.

Að þessu sinni var sjónum beint að fyrirtækjum og starfsemi í Skagafirði. Voru fimm fyrirtæki tilnefnd: Gæðingur, Haf og Land, Iceprotein, Sauðárkróksbakarí og Urðarköttur. Niðurstaðan varð sú að Iceprotein hreppti verðlaunin.

Athöfnin hófst með ávarpi Adolfs H. Berndsen, formanns SSNV, Þá flutti Ágústa Sigrún Ágústsdóttir frá Carpe Diem erindi um árangur og mikilvægi markvissrar mannauðsstjórnunar. Loks kynntu þau fyrirtæki sem tilnefnd voru starfsemi sína, en fram kom að þau höfðu verið valin úr hópi margra verðugra og valið milli þeirra var erfitt, þó að Iceprotein hreppti að lokum hnossið.

Feykir ræddi við Stefaníu Ingu Sigurðardóttur, rannsóknarstjóra hjá Iceprotein, eftir afhendinguna. Hún segir fyrirtækið í raun á leiðinni í tvær áttir. „Annars vegar er það próteinframleiðslan sjálf, sem fyrirtækið snerist um í upphafi. En svo af því að við erum í eigu Kaupfélagsins, þ.e.a.s. Fisk Seafood, þá höfum við tekið að okkur alls konar gæðamælingar, að fylgja eftir gæðaferlum og öðru slíku hjá matvælafyrirtækjunum sem starfa hér. " Nánar er rætt við Stefaníu í nýjasta tölublaði Feykis, sem kom út í dag.

Fleiri fréttir