Iceprotein rannsakar sáragræðandi eiginleika sæbjúgans

Stefanía Inga Sigurðardóttir. Mynd með frétt á vef www.fiskifrettir.is
Stefanía Inga Sigurðardóttir. Mynd með frétt á vef www.fiskifrettir.is

Á vef Fiskifrétta er má finna mjög áhugavert viðtal um rannsóknir Iceprotein á sáragræðandi eignleikum sæbjúgans. Iceprotein er líftæknifyrirtæki á Sauðárkróki sem hefur getið sér gott orð fyrir þróun ýmissa fæðubótarefna sem unnin eru úr hráefni sem fellur til við fiskvinnslu og hefði áður fyrr verið hent sem úrgangur.

Fæðubótarefnin eru framleidd af systurfyrirtæki Iceprotein sem heitir Protis en bæði fyrirtækin eru í eigu FISK Seafood á Sauðárkróki og gegna þar lykilhlutverki við að fullvinna alla afurðina.

Nú er athyglinni beint að sæbjúganu, en Íslendingar hafa á síðustu árum veitt sæbjúga í nokkrum mæli til útflutnings, einkum inn á kínverskan markað.

Fyrirtækið fékk í vetur styrk frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, að upphæð 1,6 milljónum króna, til að rannsaka sáragræðandi eiginleika sæbjúgans, en þeir eiginleikar gætu hugsanlega nýst til þess að búa til sáragræðandi gel eða krem af einhverju tagi. Stefanía segir áhuginn á sáragræðandi eiginleikum sæbjúgans hafa kviknað þegar ein starfskona fyrirtækisins fór að lesa sér til.

„Þetta eru mjög furðulegar lífverur,“ segir Stefanía Inga Sigurðardóttir hjá Iceprotein um sæbjúgu. „Þegar sæbjúgað verður pirrað úti í náttúrunni, ef eitthvað er að áreita það, þá ælir það líffærunum út úr sér. Síðan treður það þeim aftur inn í sig, og þetta getur engin lífvera gert nema að hafa gott sótthreinsikerfi inni í sér.“

Viðtalið í heild sinni má lesa á vef Fiskifrétta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir