Iðja hæfing fær höfðinglega gjöf frá Lionsklúbbunum í Skagafirði

Í gær, föstudaginn 3. nóvember, var hátíðleg stund í Iðju hæfingu á Sauðárkróki þegar Lionsklúbbarnir fjórir í Skagafirði færðu Iðju að gjöf skynörvunarherbergi það sem þeir hafa safnað fyrir undanfarna mánuði. Það var Magnús Svavarsson, fráfarandi formaður Lionsklúbbs Sauðárkróks, sem afhenti Ástu Pálmadóttur, sveitarstjóra, gjafabréf fyrir herberginu ásamt árituðum skildi sem komið var fyrir við dyr herbergisins. Að því loknu klipptu Bragi Haraldsson og Ásgrímur Sigurbjörnsson á borða við dyr herbergisins. Lionsklúbbarnir buðu viðstöddum upp á veitingar og öllum viðstöddum gafst kostur á að skoða herbergið og jafnvel að prófa að leggja sig í rúminu sem er sérútbúið til að örva skynfæri eða veita þeim slökun sem þar leggjast.
Lionshreyfingin fagnar 100 ára afmæli á þessu ári og í tilefni þess voru klúbbar innan hreyfingarinnar hvattir til þess að ráðast í stærri verkefni en vanalega. Klúbbarnir fjórir tóku þá ákvörðun um að taka höndum saman og vinna í sameiningu að einu stóru verkefni í þágu samfélagsins. Stærsti þátturinn í fjáröflun þeirra var kótelettukvöld sem haldið var í lok apríl og mætti þar mikill fjöldi fólks auk þess sem opnaður var styrktarreikningur þar sem allir gátu lagt sitt af mörkum til verkefnisins.
Starfsfólk Iðju var að vonum hæstánægt með gjöfina og telur Jónína G. Gunnarsdóttir, forstöðumaður Iðju, að herbergið muni verða mikið notað og nýtast öllum notendum Iðju á einhvern hátt.
Hér er sannarlega um stórhuga verkefni að ræða sem Lionsklúbbarnir fjórir, Lionsklúbburinn Björk, Lionsklúbburinn Höfði, Lionsklúbbur Sauðárkróks og Lionsklúbbur Skagafjarðar, geta verið ákaflega stoltir af.
Mánudaginn 4. desember er Alþjóðadagur fatlaðra. Þann dag frá kl. 10-15 verður Iðja með opið hús og gefst þá öllum sem áhuga hafa kostur á að heimsækja Iðju og skoða nýja skynörvunarherbergið.
Í apríl á þessu ári fjallaði Feykir ítarlega um skynörvunarherbergið í viðtali við Jónínu G. Gunnarsdóttur. Þar segir hún meðal annars: „Skynörvunarherbergi er rými þar sem unnið er t.d. með hugmyndafræði Snoezelen þar sem tilgangurinn er að örva skynfæri einstaklings, sjón, heyrn, lykt, bragð og snertingu í umhverfi sem er öruggt, friðsælt og afslappandi. Slík rými eru eins og nafnið gefur til kynna sérstaklega fyrir þá sem eiga við ýmiss konar skyntruflanir að stríða og/eða eru með skerta líkamsstarfssemi eða líkamsvitund.“ Jónína segir ennfremur að slík skynörvunarherbergi hafi reynst einstaklingum með alvarlega fötlun vel s.s. fólki með þroskahömlun, einhverfu, hreyfihömlun, daufblindu, sjónskerðingu og fólki með elliglöp og alsheimer. Herbergin henta börnum jafnt sem fullorðnum. Hún segir hagnýtt gildi aðferðarinnar vera ótvírætt og nefnir nokkur dæmi:
• Veitir fjölþætta skynjunar upplifun
• Skapar rólegt og afslappandi umhverfi
• Veitir möguleika á tengslum, hlýju og nærveru
• Skynáreiti sem örvar og styrkir taugakerfið
• Getur minnkað sjálfsörvandi hegðun
• Einbeiting getur aukist
• Dregur úr spennu
• Vekur áhuga
Viðtalið í heild sinni má finna hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.