ÍR-ingar skelltu Stólunum

Tindastólsmenn heimsóttu ÍR-inga síðastliðið föstudagskvöld og ekki var ferðin til fjár og kannski ekki viðeigandi í þessu árferði. Heimamenn í ÍR tóku leikinn í sínar hendur strax frá byrjun, en Stólarnir náðu sér engan veginn á strik. Darrel Flake var sá eini sem átti eðlilegan leik með 24 stig og 13 fráköst. Aðrir áttu því miður dapran leik og enginn annar leikmaður náði að skora fleiri stig en tíu af gestunum.

Á heimasíðu Tindastóls segir: ÍR náði snemma forystunni í 1. leikhluta. Komust í 12-4 eftir rúmar þrjár mínútur, en Tindastóll kom þá til baka hægt og rólega og náðu muninum niður í þrjú stig i stöðunni 19-16. Heimamenn löguðu síðan stöðuna í lok fjórðungsins og staðan að honum loknum 26-18 og aftur kominn átta stiga munur.

ÍR náði fljótlega 10 - 12 stiga mun í 2. leikhluta sem hélst fram að hálfleik. Mestur varð munurinn 15 stig í stöðunni 39-24. Í hálfleik var staðan 53-41 og engin merki um það að ÍR ætlaði láta leikinn renna úr greipum sér.

Þriðji leikhluti einkenndist af slakri hittni. Munurinn sem var í hálfleik var svipaður lengst af í þriðja fjórðungi. Tindastóll kom honum reyndar niður í 7 stig, 62-55 þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Heimamenn tóku sig þá til og skoruðu 9-1 þessar síðustu mínútur og leiddu með fimmtán stigum fyrir síðasta partinn. Staðan 71-56 og lítið sem benti til að Stólarnir næðu að snúa þessu sér í vil.

Ekki batnaði stigaskorið hjá liðunum í byrjun síðasta leikhluta. Á fyrstu fjórum mínútum hans skoraði ÍR þrjú stig og Tindastóll 2. Staðan 74 -58 þegar sex mínútur lifðu eftir af leiknum. Þá hrukku liðin í gang, en ÍR hélt sínu forskoti út leikinn og lauk honum með 19 stiga sigri heimamanna, 90-71. Sami munur og í leik liðanna á þessum sama velli í fyrra.

Fleiri fréttir