Íslandsmeistaramót í Endurocross um helgina
Það verður mikið um að vera í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki laugardaginn 20. nóvember nk. þegar Íslandsmeistaramót í Endurocross fer fram. Að sögn Eyþórs Jónassonar gengur undirbúningur vel og útlit fyrir hörku skemmtun.
Eyþór segir að verið sé að hlaða inn allskonar dóti sem notað verður í keppnisbrautinni s.s. eins og rekaviðardrumbar, dekk af ýmsum stærðum, vélavagni sem á eftir að reyna á þor keppenda og bílhræ svo eitthvað sé nefnt og nú er verið að smíða sérhannaðan stökkpall.
Aðspurður um vélhjól í reiðhöll segir Eyþór að notagildi hússins sé það sem ímyndunaraflið leyfir. Vill hann brýna fyrir gestum að koma vel klætt því eflaust verða stóru hurðirnar mikið opnar til að lofta út.
Keppni hefst kl.15.00 og eru allir hvattir til að kíkja á spennandi keppni þar sem bestu vélhjólaknapar landsins mæta og reyna með sér.