Íslenskir sjómenn
Síðastliðið vor kom út bókin Íslenskir sjómenn. Um er að ræða nútímalega bók um sjómenn, jafnvel nýstárlega . Um þrír fjórðu bókarinnar eru glæsilegar litmyndir Gunnars Þórs Nilsen af sjómönnum úti á sjó og í landi. Einnig eru allskonar fiskvinnslur skoðaðar; harðfiskverkandi á Ísafirði, hausaþurrkun á Dalvík og grásleppukarlar á Ólafsfirði.
Gústaf Hannibal skrifaði lýsingar á mönnum og því sem fyrir augu bar auk stuttra pistla um jafn ólík málefni og stemmninguna um borð til viðtals við „helvítis" fiskifræðing.
Slegist var í för með sex bátum, frá lítilli trillu á Vestfjörðum til risastórra fjölveiðiskipa.
Svipmyndir dregnar upp af mönnum eins og Hauki Ólafssyni á Neskaupstað sem er kominn á tíræðisaldur en rær enn einn til fiskjar, Gumma Golla frá Bolungarvík, skipstjóri sem varð baráttumaður fyrir trillukarla, Sigga Bessa á Djúpavogi sem lenti í háska á eftirstríðsárunum og var talinn af eftir að hafa verið týndur í marga daga, en var bjargað af þýskum togara sem villtist vegna þess að hann var með biluð siglingatæki, sem reyndar komust skyndilega í lag eftir að Siggi Bessa og félagar voru komnir til hafnar í Reykjavík og fleiri menn sem hafa helgað sjónum líf sitt.
Markmið höfunda var að gera bók sem væri óður til sjómanna en á sama tíma skemmtileg aflestrar og glæsileg, en líka að þetta verði í framtíðinni heimild um hvernig íslenskur sjávarútvegur leit út árið 2008. Bókin er 264 blaðsíður í stóru broti. Íslenskir sjómenn er á tilboði hjá útgefanda fyrir jólin á aðeins 4990 krónur, ef að hún er send út á land bætast við 340 krónur, sem er helmingur sendingakostnaðarins.