Ivan Gavrilovic til liðs við Stólana
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við hinn serbneska Ivan Gavrilovic um að leika með karlaliðinu á komandi tímabili. Kappinn er um 2,05 metrar frá toppi til táar, fæddur 6. mars 1996, og spilaði síðast með Arka Gdynia í Póllandi. Hann hefur komið víða við á ferlinum og auk Póllands þá hefur hann stigið dansinn í Austurríki, Búlgaríu, Litháen, Norður Makedóníu, Serbíu og Slóveníu.
„Ivan kemur til okkar í lok mánaðar og það er tilhlökkun að fá hann í Skagafjörðinn. Hann getur leikið bæði stöðu kraftframerja sem og miðherja, en það var eitthvað sem okkur fannst mjög mikilvægt í leit okkar að þessum síðasta erlenda leikmanni í liðið. Hann hefur fína reynslu úr góðum deildum í Evrópu sem og að hafa leikið í Evrópukeppni.” segir Arnar Guðjónsson þjálfari Stólanna.
Fram kemur í fréttatilkynningu kkd. Tindastóls að Ivan segist hafa valið að ganga til liðs við Tindastól vegna metnaðarfulls starfs, góðrar umgjarðar og sögu liðsins. „Ég vil hjálpa liðinu að verða enn betra. Ég veit að áhorfendurnir elska körfubolta og ég hef séð myndir af fullum íþróttahúsum, ég elska það. Sauðárkrókur lítur út fyrir að vera fallegur bær og ég hlakka til að koma.”
Það stefnir í spennandi körfuboltavetur og á pappírnum er lið Tindastóls ansi sterkt.