Jákvæð rekstrarniðurstaða hjá Sveitarfélaginu Skagafirði fjórða árið í röð

Það er ánægjulegt að leggja fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 sem gerir ráð fyrir rekstrarafgangi af samstæðureikningi sveitarsjóðs að upphæð 505 milljónir fyrir afskriftir og fjármagnsliði og 89 milljónir að þeim meðtöldum. Ef áætlanir ganga eftir verður árið 2015 fjórða árið í röð sem gert verður upp með jákvæðri rekstrarniðurstöðu hjá Sveitarfélaginu Skagafirði en slíkur árangur hefur ekki áður náðst í sögu þess.

Óhætt er að segja að ákveðinn stöðuleiki hafi náðst í reksturinn og ber að þakka það ábyrgri fjármálastjórn og aðhaldi í rekstri undanfarinna ára. Einnig ber að þakka starfsmönnum sveitarfélagsins en ljóst er að án samstillts átaks þeirra hefði sá árangur ekki náðst líkt og rekstur undanfarinna ára ber með sér sem og sú áætlun sem lögð er fram nú. Mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut og aðhalds gætt í rekstri en ljóst er að tap á A-hluta sveitarsjóðs þarf að leiðrétta á komandi árum.

Miklar launahækkanir höfðu áhrif á áætlunina en hækkanir launa á milli áætlana 2014 og 2015 eru rúmar 210 milljónir króna. Það er gleðilegt að geta kynnt fjárhagsáætlun með viðlíka rekstrarafgangi og gert er ráð fyrir hér þrátt fyrir það.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 er miðað við að þar sem gjaldskrár væru hækkaðar yrðu þær hækkanir ekki umfram verðlags- og kjarasamningshækkanir. Það er því ljóst að Sveitarfélagið Skagafjörður verður áfram með einhver lægstu gjöld í leik- og grunnskólum landsins sem og að orkukostnaður verður áfram hvað lægstur á íbúa í Skagafirði. Afar mikilvægt er að hafa þau markmið uppi þegar framtíðaruppbygging svæðisins er höfð í huga. Mikilvægt er að halda þannig á málum að eftirsóknarvert sé fyrir ungt fólk að setjast að í Skagafirði til lengri og skemmri tíma. Frá þeirri stefnu má ekki kvika.

Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði rúmar 354 milljónir á árinu og framkvæmt verði fyrir 350 milljónir. Afborganir langtímalána verði 381 milljón og ný lán verði tekin upp á 335 milljónir sem þýðir að skuldir sveitarsjóðs munu lækka á tímabilinu. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarsjóðs ekki fara yfir 150% af tekjum og höfðu ýmsir áhyggjur af því að með þeim framkvæmdum sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili myndi sveitarsjóður rjúfa það viðmið. Gerir fjárhagsáætlun 2015 hins vegar ráð fyrir því að skuldahlutfallið verði 132%, en þegar búið er að draga frá lífeyrisskuldbindingu að hluta og skuldir orku- og veitufélaga líkt og lögin gera ráð fyrir, er skuldahlutfall samstæðunnar um 123% sem er vel innan allra marka.

Sú áætlun sem lögð er fram nú var unnin í samvinnu allra flokka, bæði í nefndum sveitarfélagsins og í byggðarráði sem er mikilvægt og ber að þakka fyrir þá vinnu.

Með slíkar kennitölur í rekstri er ljóst að áfram er hægt að halda á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til hagsældar og uppbyggingar innviða sveitarfélagsins.

Við óskum Skagfirðingum til hamingju með þá áætlun sem hér er lögð fram og óskum öllum íbúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Stefán Vagn Stefánsson, fulltrúi Framsóknarflokks

Sigríður Magnúsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks

Bjarki Tryggvason, fulltrúi Framsóknarflokks

Viggó Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokks

Þórdís Friðbjörnsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokks

Sigríður Svavarsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks

Gunnsteinn Björnsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir