Jákvæð þróun, en betur má ef duga skal
Ríkisendurskoðun hefur gefið út skýrslu um eftirfylgni Háskólans á Hólum vegna skýrslu ársins 2011, eins og má hefur verið greint frá hér á feykir.is. Í nýlegri frétt á vef Hólaskóla segir: "Skýrsla þessi er greinargott plagg og ágætis samantekt á þróun vinnu við háskólann, þó dregin sé upp dökk mynd. Stjórnendur háskólans vilja því benda á nokkra jákvæða þætti í starfi stofnunarinnar:
• Verkefnabókhald var innleitt á árunum 2012-13.
• Rekstraráætlanir eru nýttar sem stjórntæki við framkvæmd alla.
• Rafrænt samþykktarferli reikninga var innleitt árið 2014.
• Rekstur Háskólans á Hólum skilaði 20,5 milljón króna rekstrarafgangi árið 2013."
Á vef skólans segir ennfremur: "Jafnframt er athygli vakin á viðbrögðum mennta- og menningarmálaráðuneytis og Háskólans á Hólum við ábendingum Ríkisendurskoðunar á bls. 7-9 í eftirfylgniskýrslunni.
Rekstrarafgangur ársins 2013 skýrist af 39 millj. kr. fjárveitingu til skólans á árinu og gríðarlegu aðhaldi í rekstri á öllum sviðum starfsemi skólans. Háskólinn á Hólum fékk heimild til að nýta rekstrarafgang ársins 2013 á árinu 2014, sem var afar jákvætt fyrir starf skólans. Þrátt fyrir það var þremur starfsmönnum sagt upp störfum á árinu vegna þröngrar fjárhagsstöðu, auk þess sem krafa var gerð um frekara aðhald í rekstri.
Án mikillar samheldni starfsmanna og óbilandi trúar á okkar störfum væri árangur Háskólans á Hólum ekki eins og raun ber vitni.Forráðamenn Háskólans á Hólum eru stoltir af verkum starfsmanna sinna."
Skýrslu Ríkisendurskoðunar má finna hér. Ennfremur ályktun háskólaráðs Háskólans á Hólum, frá 10. október sl.