Jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku verði flýtt um áratug

Mynd: stjornarradid.is
Mynd: stjornarradid.is

Í morgun voru kynntar tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar um úrbætur í innviðum í jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku og kom þar fram að þeim verður flýtt um áratug. Hópurinn var skipaður í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið í desember síðastliðnum.

Fram kemur á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti að samkvæmt áætlunum átti jarðstrengjavæðingunni að ljúka eftir 15 ár eða árið 2035 en nú er lagt til að verkið verði unnið þrefalt hraðar eða á fimm árum og þá þannig að mestu lokið 2025. Samhliða þessu verkefni er ætlunin að innleiða þrífösun. Framkvæmdirnar lúta nær alfarið að dreifbýlishluta dreifikerfa RARIK og Orkubús Vestfjarða og kallar tillagan á að ríkissjóður leggi fram flýtigjald, um 500-600 milljónir króna.

„Ávinningurinn af þessu er mikill, bæði hvað varðar aukið afhendingaröryggi og innleiðingu þrífösunar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra orkumála. „Ég hef þegar beitt mér fyrir hliðstæðri flýtingu framkvæmda á tveimur svæðum þar sem þörfin var óvenju brýn, í Skaftárhreppi og á Mýrum. Við eigum að halda áfram á þeirri braut.“

Tillögur átakshópsins og viðbótarupplýsingar má nálgast á vefnum innvidir2020.is. Tillögurnar verða til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til loka mars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir