Jazztónleikar í Félagsheimilinu á Blönduósi
Föstudagskvöldið, 29. júní kl. 20:30, verða jazztónleikar með Haraldi Ægi Guðmundssyni og austurríska jazzpíanistanum Lukas Kletzander, í Félagsheimilinu á Blönduósi.
Haraldur Ægir er fæddur og uppalinn á Blönduósi. Árið 2006 fluttist Haraldur til Salzburgar í Austurríki og hóf þar fljótlega að nema á kontrabassa hjá Alexander Meik og spila með í ýmsum ólíkum verkefnum. Þar á meðal Ensemble Úngút, Miriam Acoustic Group og fleirum. Haraldur hefur ásamt Ólafi Tómasi Guðbjartssyni starfrækt hljómsveitina Groundfloor frá árinu 2003 og leikið fjölda tónleika í Austurríki, Þýskalandi og Ítalíu. Á árinu 2010 stofnsetti Haraldur tvö mismundandi tríó utan um tónsköpun sína, BaadRoots og Sound Post.
Lukas Kletzander spilaði fyrst með Haraldi Ægi árið 2010, og lék hann síðan listilega inn á Stories jazzplötu Haralds og Hörpu Þorvaldsdóttur frá því árið 2012. Síðan hafa þeir spilað mikið saman. Lukas kom í vel heppnað tónleikaferðalag til Íslands 2017 og Haraldur hefur farið oft og víða utan til tónleikahalds þar sem þeir spila saman.
Þetta verður í fyrsta skipti sem þeir halda tónleika á Blönduósi.
Miðaverð er 1.500 kr.
/Lee Ann
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.