Jólahlaðborð Rótarý á morgun

Rótarýklúbbur Sauðárkróks býður upp á hlaðborð í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki laugardaginn 29. nóvember kl 12-14. Sex hundruð ókeypis aðgöngumiðar verða við innganginn frá kl 12:00 þennan sama dag svo nú er bara að klæða sig aðeins upp og gera sér dagamun með bros á vör, eins og segir í auglýsingu frá klúbbnum.

Ef einhverjir sjá sér fært að láta eitthvað af hendi rakna verður söfnunarkassi við innganginn þar sem gestum gefst tækifæri til að styðja gott málefni. Rótarýmenn vonast til að sem flestir sjái sér fært að mæta og njóta matar og tónlistar.

í byrjun aðventu í fyrra mættu á sjötta hundrað manns á fjölskyldujólahlaðborð sem Rótarýklúbbur Sauðárkróks stóð fyrir með góðum stuðningi margra fyrirtækja. Mæltist það einstaklega vel fyrir og nú ætla Rótarýmenn að endurtaka leikinn. Vonast þeir eftir að þeir sem voru með í fyrra mæti og nýjar fjölskyldur láti sjá sig.

Fleiri fréttir