Jólaljósin tendruð á morgun

Það verður sannkölluð jólastemning á Sauðárkróki, laugardaginn 27.nóvember, en þá verða ljósin tendruð á jólatré sem er gjöf frá vinabæ Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Kongsberg í Noregi.

Um kl. 14:30 verður síðan Aðalgötunni lokað fyrir bílaumferð og þá geta gestir rölt um götuna í sannkallaðri jólastemningu. Maddömurnar bjóða uppá girnilega kjötsúpu í Maddömukoti í tilefni dagsins auk þess að vera með handverkssölu. Það verður jólamarkaður í neðri sal Kaffi Króks og jólabasar í húsi Rauða krossins. Minjahúsið verður opið og þar mun Blásarasveit Tónlistarskólans spila nokkur jólalög kl. 16.30. Landsbankinn verður með sína þekktu aðventustemningu og ísbjörninn verður til sýnis í húsi Náttúrustofunnar við Kirkjutorg.  Sauðárkróksbakarí bíður uppá skemmtilega stemningu á útisvæði auk þess geta gestir keypt sér kaffihlaðborð í bakaríinu. Kaffi Krókur verður opin en þar geta gestir keypt sér heitt kakó, kaffi og kökur. Blóma- og gjafabúðin bíður gesti velkomna, Kompan, Móðins hársnyrtistofa, Kúnst, Táin og Strata, hársnyrtistofan Hjá Ernu og Gistiheimilið Mikligarður verða með opið í tilefni að deginum. Auk þess verður Tískuhúsið opið, Verslun Haraldar Júlíussonar og Skagfirðingabúð. En í auglýsingunni er hægt að sjá opnunartíma verslana.

Jólaljósin verða tendruð á jólatrénu kl.15.30 en þá mun barnakór Árskóla syngja nokkur jólalög ásamt Magna Ásgeirssyni. Hátíðarávarpið flytur sveitastjóri Skagafjarðar, Ásta Pálmadóttir og síðan munu allir hjálpast að og kalla hátt og skýrt á jólasveinana sem eru alltaf að villast. Í lokin munu allir syngja og dansa í kringum jólatréð. En Magni og Íris munu leiða sönginn og Rögnvaldur Valbergsson spilar undir.

Það verður því skemmtileg dagskrá næsta laugardag sem engin ætti að láta framhjá sér fara!

Fleiri fréttir