Jólamarkaðir út um allt um helgina

Það kennir ýmissa grasa á jólamörkuðum helgarinnar. Þessi mynd er fengin af Facebooksíðu aðventumarkaðarins í Kringlumýri.
Það kennir ýmissa grasa á jólamörkuðum helgarinnar. Þessi mynd er fengin af Facebooksíðu aðventumarkaðarins í Kringlumýri.

Þessa dagana er jólaundirbúningurinn að hefjast hjá flestum og ekki er ólíklegt að margir noti helgina til að tylla upp einhverjum jólaljósum, útbúa aðventuskreytinguna, nú eða finna þá gömlu, baka nokkrar smákökur og þeir fyrirhyggjusömu fara kannski að skrifa á jólakortin og pakka inn jólagjöfunum. Fyrir þá sem ekki eru búnir að finna það sem á að fara í pakkana og vantar kannski eitthvert smáræði er upplagt að kíkja á jólamarkað en þar er alltaf hægt að finna margt skemmtilegt dót. Og fyrir þá sem ekki vilja kaupa neitt, þá er bara að njóta jólastemningarinnar sem svífur yfir og er alveg ókeypis.

Þessa helgina eru margir markaðir, víðsvegar um landshlutann. Hér verða taldir þeir sem Feyki er kunnugt um:

Jólamarkaður Kvenfélags Bólstaðarhlíðarhrepps er haldinn í Húnaveri í dag kl. 13:00-17:00. Kvenfélagið verður með kaffisölu á staðnum. Ekki er tekið við greiðslukortum.   

Í Kringlumýri í Blönduhlíð heldur hópur kvenna aðventumarkað í dag og á morgun. Opið verður báða dagana kl. 14:00-18:00. Þar verður ekta aðventustemning og hægt að ná sér í handgerðar gersemar í jólapakkann, jólaskraut, notuð jólaföt og svo er antíkinbúðin hennar Maríu að sjálfsögðu opin. 

Á Hólabaki í Húnavatnshreppi er jólamarkaður í dag og á morgun. Opið verður báða dagana milli kl. 12:00 og 17:00. Þar verða fjölbreyttar vörur frá Lagði til sölu, einnig valdar vörur úr ýmsum áttum. Ýmislegt tilvalið til jólagjafa. Heitt á könnunni og posi á staðnum.

Gallerí Alþýðulist í Varmahlíð verður opið frá kl. 13:00-18:00 í dag.

Opið verður í Maddömukoti á Sauðárkróki frá 14:00-17:00, bæði í dag og á morgun. Boðið verður upp á kjötsúpu og fjölbreytt handverk til sölu..

Jólabasar kvenfélagsins Heklu verður í Skagabúð sunnudaginn 3. desember frá kl: 14:00-17:00. Þar verður ýmislegt á boðstólum, s.s. jólakort og pappír, og gott úrval af heimaunninni vöru og handverki. Einnig verður hægt að kaupa sér heitt súkkulaði, piparkökur, rósettur og muffins. Ekki er tekið við greiðslukortum.   

 

Um næstu helgi verður Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps með jólamarkað í Árgarði,  laugardaginn 9. desember kl. 14:00-18:00. Þar verður alls konar dýrindis varningur og handverk til sölu svo og kaffi og vöfflur með rjóma.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir