Éljagangur og norðangaddur
Skyndilega skall hann á með vetrarveðri og má nánast segja að þetta sé í fyrsta sinn í vetur sem norðanátt og éljagangur herjar á íbúa á Norðurlandi vestra. Þrátt fyrir nokkur leiðindi í veðrinu þá er ekki gul veðurviðvörun fyrir svæðið líkt og gildir um stóran hluta landsins. Engu að síður er gert ráð fyrir allt að 15 m/sek að norðan í Skagafirði og éljum í dag en útlit er fyrir minni vind í Húnavatnssýslum.
Svipað veður er í kortum morgundagsins en þó öllu hægari vindur. Það lægir á miðvikudag og spáin gerir síðan ráð fyrir skaplegu veðri fram á helgina. Frost yfirleitt um 7-12 gráður næstu daga en hlýnar á sunnudag en frystir síðan aftur.
Eins og sjá má á kortinu sem fylgir fréttinni var færð nú í morgun með þeim hætti að víðast hvar voru vegir færir en varað við hálku og hálkublettum. Þá er éljagangur á öllu svæðinu talsverður vindur og aðstæður gætu því verið erfiðar.
