Jólaskókassar frá Grunnskóla Húnaþings vestra

Starfsfólk Grunnskóla Húnaþings vestra hefur síðustu ár tekið þátt í alþjóðlega verkefninu "Jól í skókassa" og hafa Laura Ann Howser og Lára Helga Jónsdóttir verið forsprakkar þátttökunnar. Í ár er engin breyting á og hefur sendum kössum frá starfsfólkinu fjölgað milli ára, eins og fram kemur í frétt á vef Norðanáttar.

Undanfarin ár hefur starfsfólk Grunnskóla Húnaþings vestra sent frá sér þrjá til fjóra skókassa en í ár voru þeir átta talsins. Á myndinni má sjá Lauru Ann Howser og Ólöfu Kristínu Þórarinsdóttur með kassana í gær á leið til sr. Magnúsar Magnússonar sem veitir skókössum verkefnisins viðtöku og kemur þeim á réttan stað.

Verkefnið „Jól í skókassa“ felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa. Skókassarnir verða svo sendir til Úkraínu. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Síðasti móttökudagur verkefnisins er laugardagurinn 15. nóvember 2014 kl. 11:00 – 16:00 í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg 28 í Reykjavík. Ef skókössunum er skilað með öðrum hætti, t.d. póstleiðis, þá þurfa þeir að hafa borist til Reykjavíkur fyrir 15. nóvember n.k. Leiðbeiningar um hvað skal setja í skókassana, hvað má ekki fara í þá, hvernig á að ganga frá skókassanum og fleira, er að finna á vef KFUM.

Fleiri fréttir